Er ekki kominn tími til að prófa rósavín?

Vinsældir rósavína hafa aukist undanfarin ári og ekki að ástæðulausu. Það er dásamlegt að drekka glas af góðu rósavíni á fallegu sumarkvöldi. Þá eru rósavín alveg einstaklega matarvæn og fara vel með flestum mat. Þetta vita Frakkar betur en flestir aðrir. Frakkar eru miklir matgæðingar, líkt og flestir vita, og þar er hlutur rósavíns um þriðjungur af allri vínneyslu. Frakkar drekka reyndar miklu meira af léttvínum en nokkur önnur þjóð…

Eins og áður segir hafa vinsældir rósavína aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Á heimsvísu er hlutur rósavína um 10% af léttvínssölu. Framleiðslan hefur ekki alveg náð að halda í við þessar auknu vinsældir. Árið 2019 var eftirspurn eftir rósavínum meiri en framleiðsla á heimsvísu.

Ein skýring á auknum vinsældum rósavín er hversu matarvæn þau eru. Rósavín geta passað við allt frá léttum salötum og sjávarréttum yfir í grillað kjöt og grænmeti. Rósavín eru almennt mild í bragði og með frísklega sýru sem veldur því að þau falla vel að hvers konar mat.

Rósavín eru frískleg í munni og góð til að slökkva þorstann á heitum sumardögum. Það er kannski ekki svo oft sem við lendum í vandræðum með sumarhitann á Íslandi, en það koma þó dagar þar sem okkur langar í góðan svaladrykk og þá koma rósavín sterk inn. Rósavín eru líka almennt með lægra áfengisinnihald en rauðvín (yfirleitt 11-12% á móti 14-15% í rauðvínum). Rósavín eru líka yfirleitt mun ódýrari en rauðvín, en það þarf alls ekki að þýða að þau séu lakari. Þvert á móti er yfirleitt hægt að gera mjög góð kaup í rósavínum.

Vinsældir rósavína hafa aukist á Íslandi, eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Fyrir 10 árum voru rétt tæplega 40 tegundir af rósavínum sem rötuðu í hillur vínbúðanna, en þegar þetta er skrifað koma upp 98 tegundir og stærðir af rósavínum þegar leitað er að rósavínum á vef vínbúðanna. Þá fást einnig rósavín í nokkrum vefverslunum og úrvalið því líklega eitthvað yfir 100 vín, sem er frábært!

Sala rósavína og framboð á Íslandi 2012-2022
Rósavínssala á Íslandi 2012-2022. Gráa línan sýnir fjölda tegunda í boði á hverju ári og gula línan sýnir fjölda seldra eininga (flöskur/box/dósir).

Rósavín eru margvísleg, og þau geta verið gerð úr rauðum eða hvítum þrúgum. Algengast er að rósavín séu gerð með s.k. maceration (hér vantar mig gott íslenskt heiti), þar sem þrúgurnar eru kramdar og safinn látinn liggja með hýðinu í stuttan tíma (yfirleitt innan við sólarhring). Þannig fær safinn smá bragð og lit úr hýðinu. Þegar safinn er skilinn frá hýðinu er hann látinn gerjast, yfirleitt í stáltönkum en stundum í eikartunnum. Að lokinni gerjun er vínið yfirleitt geymt í sömu tunnum eða tönkum í nokkra mánuði áður en því er svo tappað á flöskur.

Önnur aðferð til að búa til rósavín er sk. Saignée-aðferð. Þá er safi úr þrúgum, sem verið er að nota í rauðvín, látinn „blæða“ af, til að rauðvínið verði kröftugra og bragðmeira. Þetta er yfirleitt gert nokkrum klukkustundum eftir að þrúgurnar hafa verið kramdar. Safinn er blætt er af, er svo notaður í rósavín. Þetta er dæmigert fyrir rósavín sem eru búin til úr t.d. Cabernet Sauvignon eða Syrah.

Rósavín eru almennt ekki ætluð til langrar geymslu, þar sem þau hafa lítil tannín og mikla sýru. Þau njóta sín því best þegar þau eru ung (2-3 ára). Þó eru undantekningar frá þessu og sum rósavín geta elst og þroskast vel, einkum ef þau innihalda einhver tannín og hafa fengið tunnuþroskun.

Ég ætla að skoða rósavín sem okkur standa til boða og fjalla um þau hér á Vínsíðunni á næstu dögum – fylgist endilega með og prófið sjálf!

Vinir á Facebook