Penfolds Bin 51 Eden Valley Riesling 2019

Hluti af WSET-3 náminu var að prófa vín gerð úr sömu þrúgunni en frá mismunandi svæðum. Þannig smökkuðum við Riesling frá Alsace og einnig Riesling frá Ástralíu. Ölgerðin gaf okkur Penfolds Bin 51 Riesling, sem er eitt besta Nýja-heims Riesling sem okkur hefur staðið til boða hérlendis og það er mikil synd að þetta vín sé ekki lengur í hillum Vínbúðanna. Ég skrifaði um 2017-árganginn og vísa í þá færslu fyrir þá sem vilja vita meira.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá Eden Valley í Suður-Ástralíu, þar sem Riesling hefur verið ræktað í 175 ár! Hér er á ferðinni 100% Riesling þar sem lagt er áherslu á frískleika og það hefur því aldrei komið í eik. Vínið var geymt á stáltönkum í 3 mánuði áður en það fór svo á flöskur.

Penfolds Bin 51 Eden Valley Riesling 2019 er fölgult á lit, með þétta angan af yllilblómum, límónum, greipaldin, eplum, ferskjum, ananas, sítrónu, gras og grænni papriku, og í lokin finnur maður smá steinolíu og hunang. Í munni er vínið þurrt og sýruríkt, með ríflega miðlungs fyllingu og gott jafnvægi. Þokkalega langt eftirbragð með ylliblómum, límónum, greipaldin, eplum, ferskjum, ananas og sítrónum. 93 stig. Mjög gott vín sem er tilbúið núna en mun halda sér vel a.m.k. næstu 7-10 árin. Fer vel með ljósu fuglakjöti, fiskréttum og svínakjöti.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (174 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur þessu víni 93 stig en Wine Spectator gefur því 88 stig.

Penfolds Bin 51 Eden Valley Riesling 2019
Mjög góð kaup
Penfolds Bin 51 Eden Valley Riesling 2019 er mjög gott vín sem fer vel með ljósu fuglakjöti, fiskréttum og svínakjöti.
4.5
93 stig

Vinir á Facebook