Wolf Blass Yellow Label Cabernet Sauvignon 2018

Vínin frá Wolf Blass hafa lengi verið fáanleg í hillum vínbúðanna þó vinsældir þeirra hafi sennilega verið meiri hér á árum áður. Á fyrstu árum Vínsíðunnar voru vín Wolf Blass reglulega til umfjöllunar hér á Vínsíðunni og vöktu almenna lukku hjá ritstjóra. Vínin sem þá voru til umfjöllunar eru því miður ekki lengur þau sömu og nú er að finna í vínbúðunum. Mér finnst því líklegt að þau hafi mætt sömu örlögum og önnur áströlsk gæðavín sem þá voru vinsæl – þau urðu einfaldlega of dýr fyrir hinn almenna neytanda og viku því fyrir ódýrari vínum.

Þó að ég hafi margsinnis skrifað um vín Wolf Blass þá hef ég samt aldrei skrifað neitt að ráði um vínhúsið og Wolf Blass sjálfan. Í dag er aðeins eitt vín frá Wolf Blass að finna í vínbúðunum – það vín sem er til umfjöllunar í dag – og því ekki seinna vænna en að hafa nokkur orð um Wolf Blass.

Wolfgang Franz Otto Blass fæddist í Þýskalandi árið 1934. Æskan hefur sjálfsagt ekki verið dans á rósum í ljósi ástandsins í Þýskalandi á fyrstu æviárum Wolfgangs. Otto fann sig ekki í skóla að stríðinu loknu og hugðist hætta námi. Foreldrar hans settu honum þá stólinn fyrir dyrnar – annað hvort færi piltur aftur á skólabekk eða hann færi að læra víngerð. Sem betur fer fyrir okkur þá valdi Wolfgans seinni kostinn og 23 ára gamall varð hann sá yngsti til að ljúka meistaranámi í vínfræðum frá háskólanum í Würzburg. Hann fór til Champagne og lærði kampavínsgerð, þá til Englands þar sem hann lærði vínblöndun áður en hann flutti til Ástralíu 1961.

Í Ástralíu kallaði hann sig Wolf Blass og hann stofnaði vínhús með sínu nafni árið 1966. Líkt og svo margir aðrir sem feta sín fyrstu skref í víngerð þá keypti hann þrúgur af vínbændum og fyrsta vín Wolf Blass kom á markað þetta sama ár, 1966 – Yellow Label Cabernet Sauvignon. Vínið fékk góðar viðtökur and the rest is history, eins og sagt er. Í dag er ársframleiðsla Wolf Blass um 5 milljónir kassa

Líkt og með mörg önnur vínhús sem við könnumst við frá fyrri tímum, þá var vínhús Wolf Blass keypt af stærri fyrirtækjum – fyrst Mildara og síðar Fosters. Fosters eignaðist einnig Penfolds, Rosemount og Lindemans, svo nokkur vínhús séu nefnd, en þau voru síðan færð yfir í annað fyrirtæki – Treasury Wines. Treasury Wines eiga einnig Beringer, 19 Crimes, Wynn’s, Stag’s Leap og Matua, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Wolf Blass virðist sjálfur ekki hafa verið sérstaklega ánægður með þróun Ástralskrar víngerðar. Að mati Wolfs var of mikil áhersla lögð á magnið og útflutning til Evrópu og Ameríku. Hann spáði því árið 2008 að myndi líða fyrir þessar áherslur og lúta í lægra haldi fyrir vínum frá Suður-Afríku. Wolf taldi að Ástralir ættu að leggja áherslu á það sem þeir gerðu best – vönduð vín úr Shiraz-þrúgunni. Þekkt ummæli Wolf Blass eru á þá leið að „engin vín yfir 15% ættu nokkru sinni að fá nein verðlaun, aldrei!“ (Vín Wolf Blass eru öll undir 15%).

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá Suður-Ástralíu. Innan Suður-Ástralíu eru þekkt svæði á borð við Barossa Valley, McLaren Vale og Coonawarra. Vín sem kennd eru við Suður-Ástralíu geta innihaldið þrúgur frá hvaða héraði sem er innan Suður-Ástralíu. Um þriðjungur vínsins fékk stutta dvöl í eikartunnum (2 mánuði).

Wolf Blass Yellow Label Cabernet Sauvignon 2018 er dökkrúbínrautt á lit, með miðlungs dýpt.  Í nefinu er þéttur ilmur af rauðum kirsuberjum, risfberjum, plómum, fíkjum, tjöru, sólberjasultu, svörtum pipar, vanillu og negul.  Í munni er vínið þurrt, með miðlungs sýru og miðlungs tannín.  Eftirbragðið þétt og ríflega miðlungslangt, með kirsuber, rifsber, plómur, fíkjur, sólberjasultu, vanillu og negul. 86 stig (3.399 kr).  Fer vel með grilluðu svína- og lambakjöti. Hentar ekki til lengri geymslu.

Notendur Vivino gefa þessu víni að meðaltali 3,3 stjörnur (146 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Wolf Blass Yellow Label Cabernet Sauvignon 2018
Wolf Blass Yellow Label Cabernet Sauvignon 2018 er ágætt vín sem fer vel með grilluðu svína- og lambakjöti
3.5
86 stig

Vinir á Facebook