El Coto Rosado Rioja 2021

Áfram heldur umfjöllun Vínsíðunnar um rósavín. Að þessu sinni höldum við til Spánar, nánar tiltekið til Rioja. Lesendur Vínsíðunnar þekkja auðvitað til Rioja, enda mikið verið fjallað um um það hérað á Vínsíðunni og Íslendingar elska jú rauðvín frá Rioja. Vínhús El Coto í Rioja telst varla gamalt samkvæmt þarlendum mælikvarða – stofnað árið 1970. Vínhúsið hefur dafnað og vaxið og það er nú með stærstu vínhúsum Rioja. Við höfum notið vína frá El Coto undanfarinn áratug, þar á meðal rósavínsins sem hér verður fjallað um. Rauðvínin frá El Coto hafa þótt nokkuð góð kaup undanfarin ár, einkum vínin sem kennd eru við El Coto de Imaz (Reserva og Gran Reserva)

Vín dagsins

El Coto Rosado Rioja 2021

Vín dagsins er rósavín frá El Coto. Vínið er gert úr þrúgunum Tempranillo (90%) og Garnacha (10%). Vínið er að hluta til gert með saignée-aðferðinni (safi tekinn af þrúgum sem nýbúið er að pressa) og að hluta með „klassísku“ aðferðinni, þar sem safinn fær að liggja stuttan tíma á hýðinu áður en hann er síaður frá og gerjaður. Gerjunin fer fram við lágt hitastig til að viðhalda ávaxtakeimnum.

El Coto Rosado Rioja 2021 er jarðarberjarautt á lit, með þéttan ilm af blómum, bökuðum eplum, kanil, eplastrúdel, perum, perubrjóstsykur, sítrónuberki og jarðarberjum. Í munni er miðlungssýra, örlítil tannín og tæplega miðlungs fylling. Vínið er þurrt, með miðlungslangt eftirbragð þar sem epli, kanill, perur, perubrjóstsykru, sítrónubörkur og vott af karamellum. 87 stig. Góð kaup (2.199 kr). Mjög matarvænt vín – fer vel með salati, austurlenskum mat, skelfiski, skinku og pylsum, eða bara sem svalandi fordrykkur.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,4 stjörnur (192 umsagnir þegar þetta er skrifað).

El Coto Rosado Rioja 2021
Góð kaup
El Coto Rosado Rioja 2021 er mjög matarvænt vín sem fer vel með salati, austurlenskum mat, skelfiski, skinku og pylsum, eða sem svalandi fordrykkur.
3.5
87 stig.

Vinir á Facebook