Marqués de Murrieta Reserva Rioja 2018

Vínhús Markgreifans af Murrieta er einn af burðarásunum í Rioja og ávallt hægt að treysta á gæði þegar vín Markgreifans eru annars vegar. Murrieta gerir ekkert Crianza eða Joven-vín, heldur er það Reserva sem er grunnlínan í framleiðslunni. Sá árgangur sem hér er fjallað um er framleiddur í 960.000 flöskum og alveg magnað að hægt sé að framleiða svona gæðavín í þetta miklu magni.

Vínið er gert úr þrúgunum Tempranillo (86%), Graciano (8%), Mazuelo (4% – þrúgan kallast einnig Cariñena eða Carignan) og Garnacha (2%). Að lokinni gerjun var vínið sett á amerískar eikartunnur þar sem það var geymt í 21 mánuð. Þá var það flutt yfir í stóra, steypta tanka þar sem vínið var látið setjast (og botnfalla) fyrir átöppun á flöskur. Árið 2018 tók Murrieta í notkun nýja víngerð og þessi árgangur er sá fyrsti sem var gerður í nýju víngerðinni.

Marqués de Murrieta Reserva Rioja 2018 hefur djúpan rúbínrauðan lit, með þéttri angan af vanillu, leðri, brómberjum, sólberjum, svörtum kirsuberjum, negul og anís. Vínið er þurrt, sýruríkt, með ríflega miðlungs tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið heldur sér nokkuð lengi, og þar má greina sólber, kakó. leður, brómber, kirsuber, negul, eik og tóbak. Vínið er tilbúið til neyslu en batnar eflaust ef það fær 3-4 ár til viðbótar í geymslu. 93 stig. Mjög góð kaup (4.591 kr). Fer vel með góðri steik (naut, lamb, villibráð) en einnig með spænskri skinku og hörðum ostum.

James Suckling gefur víninu 94 stig og Tim Atkin gefur sömuleiðis 94 stig. Robert Parker gefur líka 94 stig en Wine Spectator eru öllu hógværari og gefa 91 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,2 stjörnur (4.047 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Marqués de Murrieta Reserva Rioja 2018
Mjög góð kaup
Marqués de Murrieta Reserva Rioja 2018 fer vel með góðri steik (naut, lamb, villibráð) en einnig með spænskri skinku og hörðum ostum.
5
93 stig

Vinir á Facebook