Muga Selección Especial 2019

Bodegas Muga er líklega eitt þekktasta spænska vínhúsið á Íslandi og sennilega óþarfi að fjölyrða of mikið um þetta ágæta vínhús. Reserva-vínið þeirra selst í bílförmum í íslenskum vínbúðum og ekki að ástæðulausu, enda um gæðavín að ræða.  Vínið sem hér er fjallað um er hins vegar s.k. seleccion especial, þar sem vínið er flokkað sem reserva en hefur fengið nokkuð lengri geymslu en venja er um reserva-vín.

Vínið er gert úr hinum hefðbundnu Rioja-þrúgum – Tempranillo, Grenache og Graciano. Að lokinni gerjun er vínið geymt á nýjum tunnum úr franskri eik – alls 26 mánuðir á tunnu. Vínið er þá hreinsað og tappað á flöskur, þar sem það fær að hvíla í 18 mánuði til viðbótar.

Muga Seleccion Especial 2019 hefur djúpan, rúbínrauðan lit og kröftugan ilm af kirsuberjum, leðri, vanillu, brómberjum, sedrusvið, kakó, negul, plómum, anís, kanil og tóbaki. Vínið er þurrt, með mikla sýru, þétt tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið er langt og kröftugt, þar sem kirsuber, leður, vanilla, kakó, negull, anís og tóbak eru mest áberandi. 94 stig. Frábær kaup (5.999 kr). Njótið með grilluðu lambi, spænskri skinku eða góðum ostum á borð við Manchego eða öðrum sambærilegum ostum.

James Suckling gefur þessu víni 95 stig. Þorri Hringsson gefur því 5 stjörnur. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,2 stjörnur (775 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Muga Selección Especial 2019
Frábær kaup
Muga Seleccion Especial 2019 fer vel með grilluðu lambi, spænskri skinku eða góðum ostum á borð við Manchego eða öðrum sambærilegum ostum.
5
94 stig

Vinir á Facebook