Koncho Kindzmaraulin Semi-Sweet 2021

Síðasta vínið að sinni í umfjöllun minni um Georgísk vín kemur frá vínhúsi Koncho, sem ég fjallaði aðeins um fyrir nokkrum dögum. Vínhús Koncho á sér langa sögu sem nær aftur til ársins 1737, en þetta vín er þó gert á nútímalegan hátt. Þrúgurnar (100% Saperavi) eru handtíndar af vínviðnum, losaðar af stilknum og pressaðar. Vínið er látið gerjast við nokkuð lágt hitastig og þegar áfengismagnið nær 13% er vínið kælt til að stöðva gerjunina og þannig verður vínið hálfsætt.

Koncho Kindzmaraulin Semi-Sweet 2021 hefur djúpan rúbínrauðan lit. Í nefinu finnur maður kirsuber, plómur, rjómakaramellur, kakó (brúnar Töggur), estragon og granatepli. Í munni er vínið hálfsætt, með ágæta fyllingu og þokkalega sýru. Eftirbragðið er nokkuð einfalt – kirsuber, plómur og rjómakaramellur. Sætan yfirgnæfir aðeins eftirbragðið án þess að bæta of miklu við það. 88 stig. Góð kaup (3.265 kr). Vínið er í góðu jafnvægi og fellur eflaust vel í kramið hjá mörgum. Fer vel með grilluðu lambi, ofnsteiktum lambahrygg með rjómalagaðri sveppasósu, jafnvel purusteik.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,1 stjörnu (70 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Koncho Kindzmaraulin Semi-Sweet 2021
Góð kaup
Koncho Kindzmaraulin Semi-Sweet 2021 fer vel með grilluðu lambi, ofnsteiktum lambahrygg með rjómalagaðri sveppasósu, jafnvel purusteik.
4
88 stig

Vinir á Facebook