El Enemigo Bonarda El Mirador Single Vineyard 2019

Eitt af því sem mér finnst hvað mest spennandi þegar vín eru annars vegar, er að prófa nýja þrúgu. Flestir vínáhugamenn eiga sinn heimavöll, að ég held, þar sem geta treyst á að vínin uppfylli væntingar þeirra og velja því sömu eða svipuð vín þegar farið er í vínbúðina eða út að borða. En stundum rekst maður á eitthvað nýtt og þá er að hrökkva eða stökkva.

Nýlega kom í hillur vínbúðanna vín úr þrúgunni Bonarda. Þessi þrúga kemur upphaflega frá Savoie-héraðinu við rætur frönsku Alpanna, þar sem hún gengur undir nafninu Douce Noir. Það mun þýða sæt og svört, en það nafn þótti benda til þess að þrúgan væri komin frá Piemonte á Ítalíu, því þar er til þrúga sem heitir Dolcetto Nero. Sú kenning hefur síðan verið hrakin, og Douce Noir því sögð raunverulega ættuð frá Savoie. Kannski er hún þó frá Ítalíu þrátt fyrir allt, því í Veneto-héraði á Ítalíu vex þrúga sem heitir Turca, sem er erfðafræðilega mjög lík Douce Noir (og því líklega sama þrúga).

Kært barn hefur mörg nöfn, og það á svo sannarlega við um margar vínþrúgur. Á 19. öld tóku ítalskir innflytjendur með sér vínvið til Kaliforníu, sem þeir héldu að væri þrúgan Barbera. Í Kaliforníu var (og er) þessi þrúga reyndar kölluð Charbono. Um síðustu aldamót kom svo í ljós að umrædd þrúga er alls ekki Barbera, heldur þrúgan Turca/Douce Noir/Bonarda. Til að flækja þetta meira þá er líka til þrúga í Piemonte sem heitir Bonarda Piemontese sem á ekkert skylt við þá Bonarda sem hér er fjallað um.

Í dag er 99% af ræktun Bonarda utan Frakklands – langstærsti hlutinn í Argentínu en einnig í Napa-dalnum í Kaliforníu. Í Argentínu er Bonarda næst mest ræktaða þrúgan – ræktuð á rúmlega 18.000 hektörum – en er samt aðeins um 10% af allri vínrækt í Argentínu. Í Argentínu fer stærstur hluti uppskerunnar í ávaxtarík, tannínrýr og ódýr vín sem fara sjaldan út fyrir landamærin til annarra landa. Sumir vínræktendur eru þó farnir að gefa þrúgunni meiri gaum og hafa gróðursett Bonarda-vínvið á betri vínekrum sem gefa af sér betri þrúgur.

Vín dagsins

Eins og áður segir eru sumir vínræktendur farnir að gefa Bonarda meira vægi. Það á meðal annars við um þau Adriönnu Catena og Alejandro Vigil, sem eiga El Enemigo. Þau hófu að rækta Bonarda á vínekrum í Rivadavia, sem er í hjarta San Juan-héraðs. Þrúgurnar í víni dagsins koma af vínekru sem heitir El Miradon, þar sem vínviðurinn var gróðursettur árið 2011. Líkt og með svo mörg vín frá El Enemigo, þá er ekki notast við „iðnaðargersveppi“ heldur þann gersvepp sem vex á hýði þrúganna. Að lokinni gerjun var vínið svo geymt í stórum, gömlum eikarámum í 12 mánuði áður en það var svo sett á flöskur (7.500 talsins).

El Enemigo Bonarda El Mirador Single Vineyard 2019 hefur djúpan, rúbínrauðan lit. Í nefinu má finna plómur, sólber, kirsuber, sveppi, bláberjasultu og smá eucalyptus. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungs sýru, miðlungs tannín og ágæta fyllingu. Eftirbragðið er ávaxtaríkt, með plómum, sólberjum, kirsuberjum, te, sveppum og bláberjasultu. Ágæt kaup (4.715 kr). 91 stig. Fer vel með góðri nautasteik, villibráð eða lambi,

Robert Parker og Tim Atkin gefur þessu víni 93 stig. Notendur Vivino gefa því 4,3 stjörnur (73 umsagnir þegar þetta er skrifað).

El Enemigo Bonarda El Mirador Single Vineyard 2019
Ágæt kaup
El Enemigo Bonarda El Mirador Single Vineyard 2019 fer vel með góðri nautasteik, villibráð eða lambi.
4
91 stig.

Vinir á Facebook