Marta Maté 2019

Vínrækt í Ribera del Duero á Spáni á sér langa sögu, sem líklega nær yfir þúsundir ára. Víngerð eins og við þekkjum hana hefur þó líklega hafist á 12. öld með frönskum munkum frá Búrgúnd. Saga vínhúss Marta Castrillo og César Maté nær þó ekki nema aftur til ársins 2008, þegar þau hófu að gera vín úr þrúgum af vínekrum sínum nyrst og efst í Ribera del Duero. Þau voru svo sem engir nýgræðingar þegar þessi starfsemi hófst og höfðu áður stundað víngerð í Ribera del Duero. Árið 2008 tóku þau sig til, völdu bestu þrúgurnar og bjuggu til vín sem þau kölluðu Primordium. Vínið sló í gegn, hlaut frábærar viðtökur gagnrýnenda og þessar 3.000 flöskur sem gerðar voru seldust auðvitað upp á augabragði. Bodega Marta Maté varð svo formlega til árið 2013.

César Maté hefur stundað biodynamiska vínrækt, þar sem stuðlað er að fjölbreytileika á vínekrunni – ekki er eitrað fyrir skordýrum, heldur ýtt undir tilvist þeirra, fugla og annnarra spendýra sem þar vilja vera (á meðan þau borða ekki allar þrúgurnar). Þá er stöðugt unnið á vínekrunum að skilja frá þrúgur sem ekki virðast ætla að ná þeim gæðum sem óskað er eftir. Í Ribera del Duero er heimilt að fá allt að 7 tonn af þrúgum af hverjum hektara, en hjá Marta Maté fer uppskeran ekki yfir 4 tonn af hverjum hektara. Súlfíð-notkun er líka haldið í lágmarki við sjálfa víngerðina.

Vínin eru að lokinni gerjun látin hvíla í stórum eikarámum, sem er ýmist úr franskri eða amerískri eik, í stað þess að notast við 225 lítra tunnur líkt og algengast er á Spáni. Þannig er dregið úr eikaráhrifum í vínunum og það kemst örlítið súrefni að þeim á þroskatímanum.

Vín dagsins

Vín dagsins er hreint Tempranillo, sem að lokinni gerjun var látið liggja í 14 mánuði í 2.300 lítra eikarámum (frönsk eik).

Marta Maté 2019 hefur djúpan, rúbínrauðan lit. Í nefinu finnur maður sólber, plómur, kirsuber, negul, eik og ögn af múskati. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungssýru, fáguð tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið heldur sér nokkuð lengi, og þar má finna sólber, krækiber, plómur, kirsuber, negul, vanillu, tóbak og smá eik. 93 stig. Frábær kaup (3.924). Fer vel með íslenska lambakjötinu, nauti og léttari villibráð, en einnig með pastaréttum, fuglakjöti og ostum. Venjulega fá 93 stiga vín fjórar og hálfa stjörnu hjá mér, en á þessu verði get ég auðveldlega réttlætt hálfa stjörnu í viðbót!

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,1 stjörnu (123 umsagnir þegar þetta er skrifað). Tim Atkin MW gefur þessu víni 96 stig. James Suckling gefur því 92 stig. Þorri í Víngarðinum og Steingrímur í Vinoteki gefa báðir 5 stjörnur!

Marta Maté 2019
Frábær kaup
Marta Maté 2019 fer vel með íslenska lambakjötinu, nauti og léttari villibráð, en einnig með pastaréttum, fuglakjöti og ostum.
5
93 stig

Vinir á Facebook