Viña Bosconia Reserva 2012

Eitt af því skemmtilegra sem kom inn í vínbúðirnar á árinu 2023 eru vínin frá R. López de Heredia – Tondonia, Cubillo og Bosconia. López de Heredia er almennt talið með betri vínhúsum Spánar (og víðar). Vínin fá yfirleitt mun lengri geymslu á tunnum og flöskum en gengur og gerist á Spáni. Flaggskipið er Gran Reserva sem fær heil 10 ár á tunnu, á meðan Reserva-vínin fá ekki nema 5-6 ár. Reglur í Rioja kveða á um að Reserva vín þurfi að vera a.m.k. 1 ár á tunnu og vínið verður að vera orðið 3 ára gamalt þegar það fer í sölu. Hvítvínin frá López de Heredia fá sömu meðferð og rauðvínin – Gran Reserva fær 10 ár á tunnu og Reserva 5-6 ár. Þá er vínhúsið eitt af örfáum sem gera rósavín sem eru geymd í nokkur ár á tunnum (Gran Reserva Rosade er geymt í 4 1/2 ár á tunnu).

Vínið sem hér er fjallað um, Viña Bosconia Reserva 2012, er yngsta vínið sem fáanlegt er frá Bosconia. Vínið kemur af samnefndri vínekru og er að mestu gert úr Tempranillo (80%), en það inniheldur einnig Garnacho (15%), Graciano og Mazuelo (saman um 5%). Vínið lá í 5 ár á tunnum úr amerískri eik og fór á flöskur vorið 2019. Alls voru gerðar um 80.000 flöskur af þessu víni.

R. López de Heredia Viña Bosconia Reserva 2012 hefur dökkan rúbínrauðan lit með rúmlega miðlungs dýpt. Í nefinu eru svartar plómur, kirsuber, tóbak, kaffi, svartur pipar, kakó, vanilla, leður og eik. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt með þroskuð tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið er mjúkt, heldur sér vel og þar má finna plómur, kirsuber, kakó, vanillu, tóbak, kaffi og eik. 93 stig. Frábær kaup (5.222 kr). Fer vel með lambasteik, nautaribeye og hörðum ostum. Frábært núna en þolir auðveldlega 7-10 ára geymslu til viðbótar.

Tim Atkin gefur 95 stig. Guia Penin (vínbiblía Spánar) gefur 94 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,2 stjörnur (272 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur því 93 stig.

Viña Bosconia Reserva 2012
Frábær kaup
Viña Bosconia Reserva 2012 fer vel með lambasteik, nautaribeye og hörðum ostum. Frábær kaup.
5
93 stig

Vinir á Facebook