Markus Molitor Alte Reben Mosel Riesling 2018

Markus Molitor er kominn til landsins! Þetta eru tímamót sem ég fagna ákaft – en hvers vegna? Einfaldlega vegna þess að Markus Molitor er að mínu mati einn besti hvítvínsframleiðandi í heimi. Markus Molitor er líka á allt öðru level í samanburði við flesta aðra vínframleiðendur. Vínekrurnar í Moseldalnum eru fjölmargar og á hverju ári sendir Markus Molitor frá sér um 100 mismunandi vín – allt frá þurrum hvítvínum yfir í sæt, frá rósavíni yfir í rauðvín ásamt bæði þurrum og sætum freyðivínum. Markus hefur sjálfur yfirumsjón með vínekrunum og víngerðinni.

Ég kynntist vínum Markus Molitor fyrst fyrir rúmum áratug, þegar ég smakkaði hið dásamlega Wehlener Sonnenuhr Riesling Auslese** 2005 sem ég valdi svo sem vín ársins 2007. Þetta vín smakkaði ég svo nokkrum sinnum næstu ár á eftir, en svo liðu nokkur ár áður en ég smakkaði loks aftur vín frá Markus Molitor – í þetta sinn Zeltinger Himmelreich Riesling Auslese** (Green Cap) 2016, sem einnig var alveg frábært. Þessi vín fengu bæði toppeinkunn hjá mér (96-97 stig).

Ég hef líka náð að smakka rauðvín frá Molitor – Brauneberger Klostergarten Pinot Noir** 2010 sem ég var ákaflega hrifinn af. Það var þó ekki fyrr en nú að ég smakkaði loks þurrt hvítvín frá Molitor og það er óhætt að segja að það olli engum vonbrigðum. Það er alveg sérstakt ánægjuefni að þessi vín séu nú loksins komin til landsins og mér skilst að þau séu á leið inn á valda veitingastaði, en koma svo væntanlega í vínbúðirnar á næsta ári. Það tekur því miður langan tíma að koma nýjum vínum í reynslusölu, en það er vel þess virði að bíða eftir þessum vínum því flest vínin frá Molitor þola langa geymslu (jafnvel áratugi) og batna bara með aldrinum.

Vín dagsins

Líkt og með flest hvítvínin frá Markus Molitor þá er hér um að ræða hreint Riesling. Þrúgurnar koma af 60-80 ára gömlum vínvið, en alte reben þýðir gamall vínviður. Að lokinni gerjun fékk vínið að liggja um stund í stórum eikartunnum áður en það fór á flöskur.

Markus Molitor Alte Reben Mosel Riesling 2018 er föl-strágult á lit með fína dýpt. Í nefinu er flókinn ilmur af steinefnum, ferskjum, melónum og eplum, en þarna má einnig greina daufan ananasilm og smá ger. Í munni er snörp og hrein sýra, frísklegur og safaríkur ávöxtur, epli, ananas og grös. Þetta vín er algjört nammi sem mér finnst best að drekka eitt og sér, þó það myndi smellpassa með ýmsum fiskréttum og ljósu fuglakjöti. 93 stig. Frábær kaup (3.990 kr). Hefur gott af því að geymast í a.m.k. 5 ár en á svo eftir að njóta sín í 10-15 ár eftir það.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,0 stjörnur (252 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þessi tiltekni árgangur hlaut ekki umsögn hjá Robert Parker, en 2017 árgangurinn fékk 93 stig og 2019 árgangurinn fékk 94 stig. Wine Spectator gaf 2017 árgangnum 90 stig.

Markus Molitor Alte Reben Mosel Riesling 2018
Markus Molitor Alte Reben Mosel Riesling 2018 er algjört nammi sem mér finnst best að drekka eitt og sér, þó það færi vel með fiski og fugli.
4.5
93 stig

Vinir á Facebook