Casa Gran del Siurana Gran Cruor 2012

Sumarfrí Vínsíðunnar varð óvart aðeins lengra en ég hafði gert ráð fyrir. Heimsóknir í vínbúðirnar hafa verið fáar og mest hef ég gengið á það sem ég hafði sankað að mér í kófinu undanfarið ár. Það voru samt nokkur ný vín sem rötuðu inn á borð hjá mér og ég þarf að gera þeim skil á næstunni. Þá komst ég líka í mjög skemmtilega smökkun á vínum Marques de Murrieta og þeim vínum þarf ég líka að gera skil.

Eitt af vínunum sem ég smakkaði í sumar kemur frá víngerðinni Casa Gran del Siurana. Vínhúsið á sér nokkuð langa sögu en er nú í eigu Bodegas Perelada sem hefur haft sínar höfuðstöðvar í Emporda-héraði í norður-Katalóníu. Casa Gran er staðsett við ána Siurana í Priorat-héraði. Vínekrurnar voru lengst af í eigu klausturs munkanna í Scala Dei, sem stunduðu vínrækt í mörg hundruð ár. Vínekrurnar og vínhúsið voru komin í talsverða niðurníðslu þegar það komst í eigu Perelada, sem árið 2000 hóf að endurreisa vínhúsið og vínekrurnar.

Vín dagsins

Vín dagsins er stóra vínið frá Casa Gran del Siurana. Vínið er að mestu gert úr Syrah (95%) ásamt örlitlu af Garnatxa (5%). Að lokinni gerjun fékk vínið að liggja í 18 mánuði í frönskum eikartunnum áður en það fór svo á flöskur. Alls voru framleiddar 3.399 flöskur af 2012-árgangnum.

Í vínbúðunum er einnig hægt að fá „litla“ vínið Cruor sem hefur líka verið að fá fínar einkunnir.

Casa Gran del Siurana Gran Cruor 2012 er djúp-rúbínrautt á lit, með góða dýpt og sæmilegan þroska. Í nefinu finnur maður kirsuber, leður, plómur, kakó, bláber og svartan pipar. Í munni eru stinn tannín, hófleg sýra, flottur ávöxtur og fínt jafnvægi. Rauð ber, leður, dökkt súkkulaði og tóbak í þéttu eftirbragðinu sem heldur sér vel og lengi. Vín fyrir alvöru steikur! 93 stig, ágæt kaup (7.757 kr).

Notendur Vivino. com gefa þessu víni 4,3 stjörnur (reyndar aðeins 21 umsögn þegar þetta er skrifað)

Casa Gran del Siurana Gran Cruor 2012
Casa Gran del Siurana Gran Cruor 2012 er öflugt vín með þétt eftirbragð og nýtur sín vel með alvöru steikum.
4.5
93 stig

Vinir á Facebook