Carriere Pradal GSM 2018

Vínhús Carriere Pradal í Languedoc hvílir á gömlum grunni, þar sem víngerð hefur verið stunduð þar frá tímum Rómaveldis. Vínhúsið komst í eigu Pradal-fjölskyldunnar á tímum Napóleons 3., sem var síðasti keisari Frakklands. Á þessum tíma voru vínviðirnir ofast afbrigði sem höfðu verið gróðursettir eftir Phylloxera-faraldurinn. Þessi afbrigði voru valin þar sem þau gáfu af sér ríkulega uppskeru en gæðin voru yfirleitt mun minni. Á 9. áratug síðustu aldar hóf fjölskyldan að skipta út vínviðnum fyrir hefðbundnar Languedoc-þrúgur á borð við Grenache, Mourvèdre og Syrah.

Í dag flokkast vínhúsið væntanlega sem boutique-vínhús, eða „tískuvínhús“ – þeir framleiða 3 vín og ársframleiðslan er alls rúmlega 15.000 flöskur.

Vín dagsins

Vín dagsins er klassísk Rónarblanda og inniheldur 50% Syrah, 30% Grenache og 20% Mourvèdre. Að lokinni gerjun fékk vínið að hvíla í eikartunnum í 12 mánuði. Ársframleiðslan er um 1.500 flöskur.

Carriere Pradal GSM 2018 er dökk-kirsuberjarautt á lit, unglegt með góða dýpt. í nefinu eru plómur, fjólur, leður, vanilla, pipar og blóðberg. Í munni eru fín tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Plómur, sólber, krækiber, leður og eik í þéttu eftirbragðinu sem heldur sér vel og lengi. Vínið er helst til í yngri kantinum og hefur gott af því að bíða í 3-5 ár til viðbótar en ætti að njóta sín vel í 7-10 ár eftir það. 91 stig. Fer vel með villibráð og grilluðu lambakjöti en er líka prýðilegt eitt og sér.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,4 stjörnur (50 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Carriere Pradal GSM 2018
Carriere Pradal GSM 2018 fer vel með villibráð og grilluðu lambakjöti en er líka prýðilegt eitt og sér.
4.5
91 stig

Vinir á Facebook