La Chablisienne Chablis La Sereine 2017

Vínhús La Chablisienne var stofnað árið 1923, þegar vínbændur í Chablis stofnuðu samvinnufélag til að hjálpast að í gegnum þær efnahagsþrengingar sem þá áttu sér stað. Í fyrstu sáu vínbændurnir sjálfir um að gera sín vín en La Chablisienne sá um að blanda vínin og dreifa þeim áfram til heildsala. Á sjötta áratug síðustu aldar fór La Chablisienne að taka við ógerjuðum safanum og annast allt víngerðarferlið, og þannig er það enn í dag.

La Chablisienne er eitt stærsta vínhúsið í Chablis og framleiðir 27 mismunandi vín (öll hvít, að sjálfsögðu) – þar af eru 13 premier cru og 6 grand cru. Vínin frá La Chablisienne eru alls um fjórðungur af allri framleiðslunni í Chablis.

Vín dagsins

Vín dagsins er að sjálfsögðu hreint Chardonnay sem er látið gerjast í stáltönkum. Að lokinni gerjun er vínið látið liggja áfram í stáltönkunum í 6 mánuði.

La Chablisienne Chablis La Sereine 2017 er fölgullið á lit, með miðlungsdýpt og unglegt að sjá. Í nefinu finnur maður grösugan ilm af sítrónum og steinefnum. Í munni er góð sýra og fínn ávöxtur. Greipaldin, perur, appelsínubörkur, hundasúrur og steinefni í örlítið smjörkenndu eftirbragðinu. 88 stig. Góð kaup (3.399 kr). Fer vel með skelfiski, fiskréttum, ljósu fuglakjöti og hvítmygluostum. Vínið ætti að njóta sín vel næstu 4-5 árin.

Vivino 3,7 (661 umsögn þegar þetta er skrifað). Ekki verið dæmt í Wine Spectator í nokkur ár en síðustu árgangar (2012 og 2013) fengu 89 stig. Robert Parker gefur þessum árgangi 89 stig.

La Chablisienne Chablis La Sereine 2017
Góð kaup
La Chablisienne Chablis La Sereine 2017 fer ljómandi vel með skelfiski, fiskréttum, ljósu fuglakjöti og hvítmygluostum.
4
88 stig

Vinir á Facebook