Cepa 21 Hito Tempranillo 2018

Í gær skrifaði ég um ljómandi gott vín frá Ribera del Duero og mér finnst tilvalið að halda áfram að fjalla um vín þaðan. Líkt og í gær kemur vín dagsins frá ungu vínhúsi sem tilheyrir öðru og stærra vínhúsi – Bodegas Emilio Moro. Moro-fjölskyldan hefur stundað vínrækt í yfir 100 ár, en það var þó fyrst árið 1987 sem fjölskyldan stofnaði sitt eigið vínhús. Áður hafði fjölskyldan ræktað þrúgur fyrir aðra framleiðendur en árið 1987 vildi José Moro og systkin hans að vín fjölskyldunnar fengju sitt eigið pláss á sviðinu og fjölskyldan stofnaði vínhúsið sem nefnt er eftir afa þeirra.

Fyrsta vínið frá Emilio Moro ber nafn vínhússins og myndi líklega kallast Crianza en fjölskyldan hefði ekki ákveðið árið 1998 að hætta að nota hins hefðbundnu flokkun á sín vín og vínin eru því ekki lengur kölluð Crianza, Reserva eða Gran Reserva.

Í upphafi þessarar aldar ákvað fjölskyldan að stofna annað vínhús þar sem áhersla yrði lögð á nútímalega víngerð þar með áherslu á Tempranillo-þrúguna. Þar með varð vínhúsið Cepa 21 til. Í vínhúsi Cepa 21 eru gerð fjögur rauðvín og eitt rósavín, en tvö af rauðvínunum eru fáanleg hérlendis.

Vín dagsins

Vín dagsins má kannski kalla litla vínið frá Cepa 21, þó það sé alls ekkert lítið vín. Hér er á ferðinni hreint Tinta del País (Tempranillo) sem er látið gerjast í stáltönkum og fær svo að liggja í frönskum eikartunnum í átta mánuði og myndi líklega flokkast sem „Joven“ eða ungt vín.

Cepa 21 Hito Tempranillo 2018 er dökkfjólublátt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu er nokkuð þétt angan af kirsuberjum, plómum, bláverjasultu, vanillu og fínlegri eik. Í munni eru ágæt tannín, fín sýra og góður ávöxtur. Kirsuber, plómur, eik og smá tóbak í ágætu eftirbragðinu sem heldur sér vel. 89 stig. Fer ljómandi vel með grilluðu lambi eða nauti, spænskri skinku og hörðum ostum. Drekkið á næstu 3-4 árum eða svo. Mjög góð kaup (2.999 kr).

Robert Parker gefur þessu víni 88 stig. Wine Spectator hefur gefið undanförnum árgöngum (2015-2019) 90-91 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 3,8 stjörnur (1.708 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Cepa 21 Hito Tempranillo 2018
Cepa 21 Hito Tempranillo 2018 fer ljómandi vel með grilluðu lambi eða nauti, spænskri skinku og hörðum ostum.
4
89 stig

Vinir á Facebook