Bodegas La Horra Corimbo 2015

Fyrir 3 árum fagnaði Vínklúbburinn 25 ára afmæli og af því tilefni fórum við félagarnir, ásamt mökum, í ógleymanlega ferð til Rioja. Haustið áður hafði ég hitt Mario Rotllant, stofnanda Bodegas Roda og hann bauð okkur í heimsókn. Þar fengum við að smakka öll vínin frá Roda og Corimbo, sem er í eigu Roda. Fyrir þessa ferð höfðu vínin frá Roda verið í hávegum höfð hjá mér og ekki breyttist það eftir þessa heimsókn.

Víngerðin sem býr til Corimbo heitir reyndar Bodegas La Horra og er staðsett í Ribera del Duero. Víngerð á sér auðvitað langa sögu í Ribera del Duero, en héraðið fékk samt ekki DO-stöðu fyrr en 1982. Þekktasta vínhúsið í Ribera er líklega Vega Sicilia (stofnað 1864), sem framleiðir hið stórkostlega Unico. Bodegas La Horra er sennilega með yngri vínhúsum Ribera del Duero, stofnuð 2009 þegar Roda keypti gamlar vínekrur í nágrenni þorpsins La Horra.

Reglur Ribera del Duero kveða á um að rauðvínin skuli innihalda minnst 75% Tinto del País (Tempranillo). Afgangurinn er yfirleitt Cabernet Sauvignon, Merlot og Malbec (Vega Sicilia kom með þessar þrúgur til Ribera del Duero á sínum tíma), en einnig er heimilt að nota allt að 5% Garnacha eða Albillo.

Vín dagsins

Vín dagsins er hreint Tinta del País (Tempranillo) sem kemur af u.þ.b. 20 ára vínviði. Gerjunin fer fram í stáltönkum og að henni lokinni er vínið látið ligga í 14 mánuði á tunnum úr franskri (80%) og amerískri (20%) eik. Árið 2015 var nokkuð gott á í Ribera del Duero en 2016 var hins vegar framúrskarandi og ég bíð því spenntur eftir Corimbo 2016. Ég varð hins vegar hissa þegar ég áttaði mig á að ég hef aldrei skrifað um þetta vín þó ég hafi prófað það nokkrum sinnum.

Bodegas La Horra Corimbo 2015 er dökkrúbínrautt á lit, með góða dýpt og byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður sólber, plómur, leður, balsamtóna og fínlega eik. Í munni eru fáguð tannín, góð sýra og þéttur ávöxtur. Plómur, leður, sólber, tóbak og fínleg eik í þéttu og góðu eftirbragðinu sem heldur sér vel. 93 stig. Mjög góð kaup (4.199 kr). Vínið fór mjög vel með grilluðu ribeye og nautalund, en myndi líka passa vel með stórri villibráðarsteik (hreindýr eða dádýr). Mun njóta sín vel á næstu 5-7 árum.

James Suckling gefur þessu víni 94 stig og Robert Parker gefur 92 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,0 stjörnur (923 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Við drukkum þetta vín á Steikhúsinu í Tryggvagötu í gær. Þjónninn hellti þessu í það sem að mínu mati voru of lítil glös fyrir þetta vín, og skýringin var sú að hann taldi að stór glös myndu „sprengja vínið upp“ þar sem það væri orðið þetta gamalt. Ég gef nú heldur lítið fyrir þessa skýringu, enda vínið rétt að nálgast toppinn. Ég er a.m.k. sannfærður um að Mario vinur minn hefði ekki verið sáttur við þetta. Til að sannreyna það er ég að hugsa um að prófa það aftur um helgina, þá í alvöru glösum. Ég ætla hins vega að hrósa þjóninum fyrir annars góða þjónustu og staðnum fyrir mjög góðan mat.

Bodegas La Horra Corimbo 2015
Bodegas La Horra Corimbo 2015 er frábært vín sem sómir sér vel með góðri nautasteik eða villibráð.
5
93 stig

Vinir á Facebook