Juliette Avril Chateauneuf-du-Pape 2017

Ég komst nýlega yfir rautt og hvítt Chateauneuf-du-Pape frá Juliette Avril. Þegar ég var svo að undirbúa fyrstu umsögnina um þessi vín renndi ég yfir fyrri umsagnir og varð hissa að sjá hversu lítið ég hef skrifað um þessi vín í gegnum tíðina, en mér sýnist ég bara hafa skrifað um 3 vín. Hið sama er að segja um kollega mína Þorra í Víngarðinum og Steingrím í Vinoteki að þar eru frekar fáar umsagnir um Chateauneuf-du-Pape (Þorri missti reyndar stóran hluta af sínum pistlum þegar Facebook var með einhver leiðindi við hann og eflaust hefur hann verið búinn að birta einhverja pistla um Chateauneuf-du-Pape áður en þetta gerðist). Kannski er eðlilegasta skýringin sú að framboðið á þessum vínum í vínbúðinni er ákaflega rýrt. Í dag er aðeins hægt að finna 3 rauð og 1 hvítt frá Chateauneuf-du-Pape í hillum vínbúðanna, auk þess sem hægt er að sérpanta eitt rauðvín til viðbótar. Kannski skýrist þetta dapra úrval af þeirri staðreynd að þessi vín eru flest í dýrari kantinum. Þannig kostar sérpöntunarvínið 4.999 kr, hvítvínið 5.999 kr og hin rauðvínín 3 fara öll yfir 6.000 krónur.

Í sænsku vínbúðunum (Systembolaget) eru 22 vín frá Chateauneuf-du-Pape – 2 hvít og 20 rauð, auk rúmlega 50 sérpöntunarvína. Ódýrasta vínið í almennri sölu kostar 199 SEK eða rúmar 3 þúsund krónur, en annars er verðlagningin hjá íslensku birgjunum vel sambærileg við þá sænsku (rauðvín í Svíþjóð kosta að jafnaði um 400-600 krónum meira á Íslandi, óháð því um hvaða vín er að ræða). Kannski gætu íslenskir birgjar aukið aðeins sérpöntunarúrvalið sitt, er það fer auðvitað eftir eftirspurn…

Saga Chateauneuf-du-Pape

Altént er fyrir löngu orðið tímabært að skrifa eitthvað um þessi frábæru vín (ég var reyndar búinn að því á gömlu síðunni minni og þarf að finna þann ágæta pistil…). Sögu Chateauneuf-du-Pape má rekja aftur til ársins 1308 þegar Clement V páfi flutti páfagarð til Avignon í Frakklandi. Clement og eftirmenn hans voru víst mjög hrifnir af Búrgúndarvínum og höfðu um leið mikil áhrif á vínrækt í sveitunum í kringum Avignon. Héraðið fór illa út úr Phylloxera-faraldrinum á 19. öld en eftir það voru vínin að mestu leyti seld til Búrgúndar til íblöndunar í Búrgúndarvín til að auka áfengismagnið og styrkja vínin. Sá háttur lagðist þó af eftir fyrri heimsstyrjöldina. Eftir ýmis hneykslismál í víngerðinni voru settar reglur um víngerð í Chateauneuf-du-Pape sem urðu svo grunnurinn að AOC-reglum héraðsins. Vínbændum í héraðinu hefur lengi verið annt um vínekrur sínar og fengu því framgengt árið 1954 að lagt var bann við flugumferð í héraðinu (flugtök, lendingar og lágflug) og ég held að þetta bann sé enn í gildi!

Chateauneuf-du-Pape er í dag ein þekktasta sýslan í suðurhluta Rónardals og vínekrurnar ná yfir 3.200 hektara lands. Þannig er vínframleiðsla í Chateauneuf-du-Pape meiri en í öllum norðurhluta Rónardals. Leyfilegt er að nota 18 mismunandi þrúgur í vínin, hvort sem um er að ræða rauðvín eða hvítvín. Þeir sem vilja lesa nánar um þessar þrúgur geta smellt á þessa grein hér á Wikipedia. Grenache, Syrah og Mourvedre eru ráðandi í rauðvínunum en hvítvínin eru nokkuð fjölbreytileg. Sumur framleiðendur búa reyndar til hreint Rousanne-hvítvín. Rauðvínin þola flest (og hafa gott af) geymslu, jafnvel í 15-20 ár, en hvítvínin eru ekki ætluð til langrar geymslu og njóta sín best ung.

Vín dagsins

Fjölskylda Juliette Avril hefur lengi komið að víngerð en hennar eigið vínhús er nú rekið af barnabarni hennar, Stephan Brun. Vínekrurnar ná yfir 30 hektara í Chateauneuf-du-Pape og aðra 30 hektara í nálægum sýslum. Vín dagsins er gert úr 65% Grenache, 25% Syrah og 10% Mourvèdre, sem að lokinni gerjun hefur fengið að liggja í 12 mánuði á eikartunnum.

Juliette Avril Chateauneuf-du-Pape 2017 er fallega kirsuberjarautt, unglegt með ágæta dýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, hindber, ögn af vanillu, franska eik og pipar. Í munni eru ágæt tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Kirsuber, steinefni, leður og örlítið mentól í þéttu og góðu eftirbragðinu sem heldur sér vel. Fer með með dökku fuglakjöti (aligæs og endur), ostum og lambi. 91 stig.

Robert Parker gefur þessu víni 89 stig en fyrri árgangar hafa verið að fá 85-90 stig. Wine Spectator hefur ekki dæmt þennan árgang en fyrri árgangar hafa verið að fá 89-92 stig.

Juliette Avril Chateauneuf-du-Pape 2017
Juliette Avril Chateauneuf-du-Pape 2017 fer með með dökku fuglakjöti (aligæs og endur), ostum og lambi.
4.5
91 stig

Vinir á Facebook