Juliette Avril Chateauneuf-du-Pape Blanc 2019

Nýlega fjallaði ég um Chateauneuf-du-Pape – þ.e.a.s. rauðvínin – og nú er komið að hvítu Chateauneuf-du-Pape. Hvítvínin eru ekki stór þáttur í víngerð Chateuneuf-du-Pape, enda ekki nema rúm 5% af framleiðslu héraðsins. Flest vínhúsin gera þó örlítið af hvítvínum og verðleggja þau svipað og rauðvínin. Flest þessara vína eru þó ekki ætluð til langrar geymslu heldur njóta þau sín best þegar þau eru ung.

Í hvít Chateauneuf-du-Pape er heimilt að nota þrúgurnar Clairette, Grenache Blanc, Bourboulenc, Roussanne, Picpoul og Picardan, en sumar af þessum þrúgum er líka notaðar í rauðvín. Uppistaðan eru fyrstu 4 þrúgurnar, en lítið fer fyrir Picpoul og Picardan.

Hvít Chateauneuf-du-Pape eru afbragðsgóð matarvín og fara mjög vel með fiskréttum hvers konar, skelfiski, humri, kjúklingi, ljósum pastaréttum með rjómasósu, grænmetisréttum og ýmsum ostum.

Vín dagsins

Í fyrradag skrifaði ég um rauðvínið frá Juliette Avril og nú er komið að hvítvíninu. Hér er um að ræða vín gert úr þrúgunum Grenache Blanc (45%), Roussanne (25%), Bourboulenc (15%) og Clairette (15%). Vínið var látið gerjast í stáltönkum og hefur, eftir því sem ég best veit, ekki haft viðkomu í eikartunnum.

Juliette Avril Chateauneuf-du-Pape Blanc 2019 er fölgult á lit, unglegt með fallega tauma og miðlungsdýpt. Í nefinu eru frískir sítrónu- og límónutónar, perur og græn epli. Í munni er frískleg sýra og miðlung fylling. Ljúfur peru-, sítrus- og melónukeimur í mildu og góðu eftirbragðinu. Mjög gott matarvín og fel vel með fiski, kjúklingi og hvítmygluostum. 90 stig. Drekkist á næstu 2 árum. Aðeins í dýrari kantinum (myndi líklega kosta um 5.000 kr hérlendis).

Ég fann engar umsagnir um þetta vín hjá öðrum vínskríbentum en fyrri árgangar hafa verið að fá um 90 stig hjá Wine Spectator og 3.8 – 4.1. Hér getur þú skoðað heimasíðu Juliette Avril.

Juliette Avril Chateauneuf-du-Pape Blanc 2019
Juliette Avril Chateauneuf-du-Pape Blanc 2019 er mjög gott matarvín og fer vel með fiski, kjúklingi og hvítmygluostum. Drekkist á næstu 2 árum.
4.5
90 stig

Vinir á Facebook