Marques de Riscal Rioja Reserva 2015

Vín Marques de Riscal hafa lengi verið á meðal hornsteina Rioja-vína í vínbúðum landsins og fallið vel í kramið hjá íslenskum vínunnendum. Það er líka auðvelt að muna eftir flöskunni – klassíski hvíti miðinn og gyllta netið utan um flöskuna. Gyllta netið var löngum gæðamerki á Rioja-rauðvínum, einkum þegar vörusvik voru algeng og flaskan fyllt með einhverju glundri þegar upprunalega innihaldið hafði verið fjarlægt.

Vínhús Markgreifans af Riscal er með þeim glæsilegri í Rioja, enda hannað af stjörnuarkitektinum Frank Gehry. Á staðnum er líka glæsilegur veitingastaður sem skartar einni Michelin-stjörnu og það er því mikil upplifun fyrir vínáhugamenn að fara þangað í skoðunarferð.

Vínhús Marques de Riscal í Rioja

Vín dagsins

Vín dagsins er hið klassíska Reserva-vín frá Marques de Riscal. Það er að mestu gert úr þrúgunni Tempranillo (96%) en örlitlu Graciano hefur verið blandað saman við (4%). Ég smakkaði þetta vín síðast fyrir 3 árum, þá var það 2013 árgangurinn sem var ekki alveg jafn sterkur og 2015 árgangurinn. Það er hins vegar áhyggjuefni að það hefur hækkað um heilar 700 krónur síðan þá.

Marques de Riscal Rioja Reserva 2015 er fallega kirsuberjarautt á lit, með miðlungsdýpt og aðeins örlar á þroska. Í nefinu finnur maður kirsuber, hindber, vanillu, kryddjurtir og ameríska eikartóna. Í munni eru góð tannín, fín sýra og ágætur ávöxtur. Kirsuber, vanilla og krydduð eik í ágætu eftirbragðinu. Fer vel með rauðu kjöti hvers konar, einkum íslenska lambinu, en einnig með góðri skinku, ostum og jafnvel grilluðu fuglakjöti. Ágæt kaup (3.699 kr). 90 stig.

Ég fann ekki umsagnir um þennan tiltekna árgang aðrar en einkunnir notenda Vivino, sem gefa þessu víni 4.1 stjörnu (11.501 umsögn þegar þetta er skrifað).

Marques de Riscal Rioja Reserva 2015
Marques de Riscal Reserva 2015 fer vel með rauðu kjöti hvers konar, einkum íslenska lambinu, en einnig skinku og góðum ostum.
4
90 stig

Vinir á Facebook