Ogier Oratorio Chateauneuf-du-Pape

Ogier Chateauneuf-du-Pape Oratorio 2015

Nýlega fjallaði ég um tvö Chateauneuf-du-Pape – rauðvín og hvítvín – og fyrst maður er á annað borð byrjaður á þessu héraði þá er best að halda því bara áfram, enda mörg frábær vín sem þaðan koma. Röðin er nú komin að vínhúsi Ogier, sem rekur sögu sína aftur til ársins 1859. Fyrst um sinn starfaði Ogier sem negociant – kaupmaður sem kaupir þrúgur og/eða vín frá vínbændum og selur undir eigin merkjum. Þannig var starfsemin fyrstu 100 árin eða svo, en eftir síðari heimsstyrjöld fór Ogier að blanda eigin vín og geyma (negociant-éleveur). Fljótlega sameinuðust Ogier og Caves des Papes og 1994 rann vínhúsið saman við Vignobles Jeanjean í Languedoc. Árið 2000 eignaðist Ogier vínhús Clos de l’Oratoire des Papes, sem er okkur íslendingum að góðu kunnugt, en þau vín eru ennþá framleidd undir merkjum Clos de l’Oratoire des Papes.

Undir merkjum Ogier eru framleidd 8 rauð Chateauneuf-du-Pape og 4 hvít, en af þeim eru aðeins vínin frá Clos de l’Oratoire des Papes fáanleg hérlendis. Auk þess gerir Ogier vín frá helstu héruðum suðurhluta Rónardals, s.s. Gigondas, Vacqueyras, Rastau og Cotes-du-Rhone. Rúmur helmingur kemur þó frá Chateauneuf-du-Pape.

Vín dagsins

Ogier Oratorio Chateauneuf-du-Pape

Vín dagsins er rautt Chateauneuf-du-Pape frá Ogier. Það er gert úr þrúgunum Grenache (75%), Syrah (15%), Cinsault (5%) og Mourvedre (5%). Vínið er látið liggja á stórum eikartunnum í 12-14 mánuði áður en það fer á flöskur. Ársframleiðslan er u.þ.b. 750 kassar á ári eða um 4.500 flöskur. Vínið er ekki ætlað til langrar geymslu og má því kannski kalla það „nútímalegt“ Chateuneuf-du-Pape.

Ogier Chateauneuf-du-Pape Oratorio 2015 er rúbinrautt á lit, meða ágæta dýpt og byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður úttihus, pipar, anís og leður. Í munni eru stinn tannín, ágæt sýra og fínn ávöxtur. Leður, hrat, tóbak og plómur í ágætu eftirbragðinu. Fyrirtaks matarvín sem fer vel með lambi, svíni og fuglakjöti. 89 stig.

Robert Parker gefur þessu víni 91 stig, en það eru aðeins 18 umsagnir á Vivino (meðaleinkunn 3.8 stjörnur) og engar um fyrri árganga.

Ogier Oratorio Chateauneuf-du-Pape
Ogier Chateauneuf-du-Pape Oratorio 2015
Ogier Oratorio Chateauneuf-du-Pape 2015 er fyrirtaks matarvín sem fer vel með lambi, svíni og fuglakjöti.
4
89 stig

Vinir á Facebook