Beringer Knights Valley Cabernet Sauvignon 2014

Á fyrstu árum Vínsíðunnar (2000 eða svo) voru vínin frá Beringer nokkuð reglulega í mínum glösum – Napa Valley Cabernet Sauvignon og Chardonnay. Stöku sinnum eignaðist maður Private Reserve Cabernet eða Chardonnay og naut þeirra við sérstök tækifæri. Ég flutti svo út til Svíþjóðar árið 2002 og einhvern tíma eftir það hurfu þessi vín úr hillum vínbúðanna. Reyndar held ég að mörg önnur vín frá nýja heiminum – einkum Ástralíu og Bandaríkjunum – hafi horfið úr hillunum á þessum tíma, líklega vegna hækkunar innkaupsverðs og flutningskostnaðar og þau því orðið fulldýr fyrir flesta neytendur, sem í staðinn leituðu á önnur mið.

Í stað þessara vína frá Napa Valley er nú hægt að fá ódýrari vörulínur frá Beringer, og þar eru alveg prýðisgóð vín á ferðinni. Þau eru vissulega ekki í sama klassa og Napa Valley-vínin en það er þó ennþá hægt að fá Chardonnay úr þeirri línu í vínbúðunum og ég held að það sé orðið löngu tímabært að rifja upp gömul kynni…

Vín dagsins er reyndar ekki úr áðurnefndri Napa Valley-línu, heldur kemur það frá svæði sem kallast Knights Valley og er í Sonoma í Kaliforníu. Knights Valley var skilgreint sem sérstakt vínræktarsvæði árið 1983 og nær alls yfir 150 ferkílómetra. Vínekrurnar eru þó ekki nema um 8 ferkílómetrar og þar eru einkum ræktaðar klassískar Bordeaux-þrúgur – Cabernet Sauvignon, Merlot, Cabernet Franc, Malbec og Petit Verdot, ásamt Chardonnay, Sauvignon Blanc og Viognier.

Vín dagsins

Eins og fyrr segir kemur vín dagsins frá Knights Valley og hér er um að ræða hreint Cabernet Sauvignon, sem að lokinni gerjun er látið liggja á frönskum eikartunnum í 20 mánuði áður en það fer á flöskur.

Beringer Knights Valley Cabernet Sauvignon 2014 er dökk-kirsuberjarautt á lit, með góða dýpt, og farið að sýna smá þroska. Í nefinu finnur maður kirsuber, hindber, negul, leður, vanillu, pipar, súkkulaði og plómur. Í munni eru hrjúf tannín, góð sýra og fínn ávöxtur. Leður, pipar, plómur, vanilla, lakkrís og mildir eikartónar í eftirbragðinu sem heldur sér nokkuð vel. Þetta vín þarf umhellingu 1 klst áður en það er drukkið til að njóta sín sem best, og líklega á það um 5-7 ár eftir á toppnum. Fer vel með nautasteik og léttari villibráð. 90 stig (6.499 kr).

Robert Parker gefur þessu víni 87 stig og Wine Spectator gefur 88 stig. Notendur Vivino.com gefa þessu víni 4.1 stjörnu (4820 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Beringer Knights Valley Cabernet Sauvignon 2014
Beringer Knights Valley Cabernet Sauvignon er þétt og gott rauðvín sem fer vel með nautasteik og léttari villibráð.
4
90 stig

Vinir á Facebook