Artadi Viñas de Gain Vineyard Selection 2017

Vínhús Artadi er ungt að árum, a.m.k. miðað við önnur vínhús í Rioja, stofnað árið 1985. Upphaflega var vínhúsið samstarf ræktenda í Laguardia sem er syðst í Baskalandi og tilheyrir Álava-hluta La Rioja. Síðar tóku 2 fjölskyldur innan hópsins við stjórnartaumunum og vínhúsið hefur blómstrað og stækkað. Árið 1996 hófst starfsemi í Navarra (vín framleidd undir merkjum Artazu), árið 1999 í Alicante (undir merkjum El Sequé) og árið 2015 í Guipúzcoa sem er nyrst í Baskalandi og liggur að Biscaya-flóanum. Vín frá Artazu og El Sequé er að finna í Vínbúðunum og alveg óhætt að mæla með þeim. Áhugasamir geta kíkt hér á heimasíðu Artadi.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur af fjölmörgum vínekrum í Laguardia. Hér er á ferðinni hreint Tempranillo-vín sem hefur að lokinni gerjun í stáltönkum fengið að liggja í 12 mánuði á tunnum úr franskri eik. Víngerðarferlið er allt lífrænt. Ég smakkaði þetta fyrr í vetur en var ekki sáttur – fannst þetta ekki ríma við það sem ég hafði lesið um þetta vín og birti því ekki umsögnina. Ég vildi þó gefa því annan séns og sé ekki eftir því því hér er á ferðinni mjög vel gert vín sem flestir ættu að vera ánægðir með.

Artadi Viñas de Gain Vineyard Selection 2017 er djúprautt á lit, með góða dýpt, unglegt. Í nefinu finnur maður kirsuber, bláber, fjólur pipar og krydd. Í munni eru stinn tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Leður, kirsuber, kakó og eik í þéttu og góðu eftirbragðinu sem heldur sér vel. Vínið mun eflaust njóta sín vel næstu 5 ár eða svo. 92 stig. Góð kaup (4.390 kr). Fer vel með nautasteik og villibráð, einkum ef það hefur ratað á grillið.

Robert Parker gefur þessu víni 92 stig og þess má geta að frá 1998 hafa allir árgangar að 2 undanskildum fengið 90 stig eða meira hjá Robert Parker! Notendur Vivino.com gefa 4.0 stjörnur (562 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Spectator gefur 86 stig (þeir hafa kannski verið á sömu skoðun og ég þegar ég smakkaði þetta vín sl. haust?). Þorri Hringsson gefur þessu víni 5 stjörnur.

Artadi Viñas de Gain Vineyard Selection 2017
Fer vel með nautasteik og villibráð, einkum ef það hefur ratað á grillið. Mjög vel gert vín sem flestum ætti að líka vel við.
4.5
92 stig

Vinir á Facebook