Crudo Negroamaro Rosato 2020

Þó svo að rósavín séu framleidd í flestum héruðum Ítalíu þá er ekkert óskaplega langt síðan Ítalir hófu að gera rósavín. Það var nefnilega ekki fyrr en árið 1943 sem ítalir hófu að gera rósavín í einhverju magni. Fyrstu rósavínin komu frá Pugliu (Puglia er hællinn á ítalska stígvélinu) og í dag kemur tæpur helmingur allra ítalskra rósavín frá Pugliu. Rósavín frá Pugliu eru mjög fjölbreytileg og vínbændum er heimilt að nota 25 mismunandi þrúgur í rósavínin. Algengast er að nota þrúguna Negroamaro í rósavínin, en einnig eru notaðar rauðar þrúgur á borð við Sangiovese og Aglianico.

Líkt og gildir um rósavínín, þá er rauðvíns- og hvítvínsflóran frá Pugliu mjög fjölbreytileg. IGT-reglurnar eru nokkuð frjálslegar og heimilt er að nota yfir 50 mismunandi þrúgur í léttvín frá Pugliu. Flest eru vínin þó úr klassískum ítölskum þrúgum á borð við Primitivo, Negroamaro, Falanghina og Fiano, ásamt Sangiovese og Aglianico.

Vín dagsins

Það fer litlum sögum af víni dagsins, en fyrirtækið á bak við það – Mare Magnum – framleiðir vín í 8 mismunandi löndum. Vínið sem hér um ræðir kemur frá Pugliu og er gert úr þrúgunni Negroamaro.

Crudo Negroamaro Rosato 2020 er föl-laxableikt á lit. Blómlegur ilmur af jarðarberjum, gúmmíbangsa, sítrónum og rauðum eplum. Í munni er vínið þurrt og sýruríkt, með miðlungsfyllingu. Jarðarber, hindber, sítrónubörkur, epli og límónur í ágætu eftirbragðinu. 86 stig. Ágæt kaup (2.593 kr.). Drekkið með ljósu fuglakjöti, fiskréttum, grænmetisréttum eða bara eitt og sér.
Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,6 stjörnur (67 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Crudo Negroamaro Rosato 2020
Crudo Negroamaro Rosato 2020 fer vel með ljósu fuglakjöti, fiskréttum, grænmetisréttum en er líka gott bara eitt og sér
3.5
86 stig

Vinir á Facebook