JP Azeitão Rosé 2021

Portúgal er líklega einna minnst þekkt fyrir rósavínin sín, a.m.k. utan Portúgals. En líkt og gildir um flest lönd suður-Evrópu þá eru þar gerð rósavín sem flest eru drukkin á heimaslóðum. Héraðið Setúbal er þekktast fyrir rauðvín og sætvín. Í héraðinu eru tvö DOC – Palmela og Setúbal – og einnig eru gerð vín sem flokkast sem Peninsula de Setúbal IGP. Palmela DOC eru rauðvín úr þrúgunni Castelão er Setúbal DOC eru styrkt sætvín úr þrúgunni Moscatel de Setúbal (sem víða annars staðar kallast Muscat d’Alexandria). IPG-vínin eru margvísleg – ýmist blöndur eða einnar-þrúgu vín.

Vínhúsið Bacalhôa á sér rétt rúmlega 100 ára sögu. Vínhús Joâo Pires & Filhos var stofnað árið 1922 og framleiddi í fyrstu ódýr vín í eins miklu magni og uppskeran leyfði. Upp úr 1970 varð hins vegar áherslubreyting í rekstrinum þar sem meiri áhersla var lögð á betri vín. Þetta lukkaðist vel, fyrirtækið dafnaði og keypti fleiri vínekrur og minni vínhús. Árið 2005 var nafninu breytt í Bacalhôa Vinhos de Portugal og í dag er Bacalhôa eitt stærsta vínhús Portúgal. Vínhúsið ræður yfir 1200 hektörum af vínekrum, fjórum kjöllurum og gerir um 40 mismunandi vín.

Vín dagsins

Vín dagsins er rósavín úr Syrah-þrúgunni (85% Syrah, afgangurinn ekki nánar tilgreindur). Vínið er gerjað við mjög lágt hitastig (10-12°C) til að varðveita ávaxtatóna vínsins.

JP Azeitão Rosé 2021 er föl-laxableikt, með þægilega og blómlega angan af jarðarberjum, hindberjum, rifsberjum og sítrusávöxtum. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt og með miðlungs fyllingu. Jarðarber, hindber, rifsber, sítrus og steinefni í ágætu eftirbragðinu. 86 stig. Ágæt kaup (2.290 kr). Ágætur fordrykkur en fer líka vel með skelfiski, grænmetisréttum og pasta.
Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,7 stjörnur (197 umsagnir þegar þetta er skrifað), en aðrar umsagnir fann ég ekki.

JP Azeitão Rosé 2021
JP Azeitão Rosé 2021 er ágætt sem fordrykkur en fer líka vel með skelfiski, grænmetisréttum og pasta.
3.5
86 stig

Vinir á Facebook