Domaine de la Baume Pinot Noir Les Vignes d’Heloise Rosé 2021

Næsta rósavín sem tekið er fyrir kemur frá Languedoc-Roussillon. Vínhúsið Domaine de La Baume á sér rúmlega 100 ára sögu, en fyrir 20 árum komst vínhúsið í eigu Les Grands Chais de France. Vínekrur La Baume eru á sléttunum í kringum þorpið Servian í Languedoc-Roussillon. Domaine de La Baume framleiðir sjö mismunandi vín – 3 hvítvín, 3 rauðvín og eitt rósavín. Vínin eru öll einnar-þrúgu vín úr klassískum frönskum þrúgum.

Vín dagsins er rósavín frá La Baume og er gert úr Pinot Noir. Þrúgurnar eru pressaðar strax við komu í hús (safinn er ekkert látinn liggja á hýðinu) og safinn svo gerjaður í stáltönkum við 16°C .

Domaine de la Baume Pinot Noir Les Vignes d'Heloise Rosé 2021

Domaine de la Baume Pinot Noir Les Vignes d’Heloise Rosé 2021 er laxableikt á lit, með angan af jarðarberjum, hindberjum, rifsberjum, rauðum eplum og sítrusávöxtum. Vínið er þurrt, með miðlungs sýru og miðlungs fyllingu. Í eftirbragðinu má finna jarðarber, hindber, rifsber, ferskjur, perur og epli, en það vantar aðeins upp á ferskleikann. 86 stig. Ágæt kaup (2.799 kr). Ágætt sem fordrykkur, eða með sushi, grænmetisréttum, lambakjöti og pizzum. Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (101 umsögn þegar þetta er skrifað). Þorri í Víngarðinum gaf þessu víni 4 stjörnur.

Domaine de la Baume Pinot Noir Les Vignes d’Heloise Rosé 2021
Domaine de la Baume Pinot Noir Les Vignes d'Heloise Rosé 2021 er ágætt sem fordrykkur, eða með sushi, grænmetisréttum, lambakjöti og pizzum.
3.5
86 stig

Vinir á Facebook