Domaine Delaporte Sancerre Chavignol Rosé 2021

Domaine Delaporte er fjölskyldufyrirtæki sem hefur starfað við víngerð síðan á 17. öld. Delaporte er staðsett í þorpinu Chavignol í Sancerre í Loire-dalnum. Þorpið er reyndar þekktara fyrir geitaost – Crottin de Chavignol – en í seinni tíð hafa léttvín héraðsins einnig aukið hróður þess og eru orðin mikilvægari en geitaosturinn fyrir efnahag svæðisins. Samkvæmt Wikipedia búa ekki nema um 130 manns í sjálfu þorpinu, en í lok 19. aldar voru íbúarnir um 500 talsins.

Eins og áður segir hefur Delaporte-fjölskyldin búið þarna og ræktað vínvið frá 17. öld. Vínekrur Delaporte ná yfir 33 hektara, þar sem stærstur hlutinn er Sauvignon Blanc, en afgangurinn Pinot Noir. Á síðustu árum hefur verið lögð meiri áhersla á lífræna ræktun, uppskera á hvern hektara hefur verið minnkuð til að auka gæðin, og eikarnotkun er sparsöm. Þrúgurnar eru svo tíndar með höndum, svo hægt sé að skilja frá þær þrúgur sem ekki uppfylla gæðakröfur (eða eru skemmdar).

Vín dagsins

Vín dagsins er rósavín, sem er gert úr 100% Pinot Noir. Þrúgurnar eru pressaðar um leið og þær koma í hús og safinn er ekki látinn liggja neitt á hýðinu. Safinn er svo látinn gerjast í stáltönkum við 15°C. Vínið er svo látið hvíla í 6 mánuði áður en það er sett á flöskur.

Domaine Delaporte Sancerre Chavignol Rosé 2021 er laxableikt á lit, með angan af jarðarberjum, rifsberjum, sítrusávöxtum, hunangi og hvítum pipar. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt og með miðlungs fyllingu. Eftirbragðið ágætt með jarðarber, sítrusávexti, appelsínubörk og hindber. Ágæt kaup (4.200 kr – ath. fæst aðeins hjá AffBlitzz). Drekkist á næstu 2 árum, helst með sjávarréttum, sushi, indverskum mat, paellu eða bara sem kaldur fordrykkur. Sýnishorn frá innflytjanda.

Meðaleinkunn þessa víns á Vivino eru 4 stjörnur (of fáar umsagnir komnar fyrir þennan árgang þegar þetta er skrifað. Wine Enthusiast gefur þessu víni 90 stig.

Domaine Delaporte Sancerre Chavignol Rosé 2021
Domaine Delaporte Sancerre Chavignol Rosé 2021 fer vel með sjávarréttum, sushi, indverskum mat, paellu eða bara sem kaldur fordrykkur.
4
88 stig

Vinir á Facebook