Beck Weißburgunder 2021

Það er ekki víst að allir lesendur Vínsíðunnar kannist við þrúguna Pinot Blanc. Þrúgan er eitt af afsprengjum Pinot Noir, en sú þrúga er frekast óstöðug – erfðafræðilega séð – og hefur í gegnum tíðina þróast í ýmsar áttir. Þekktasta afbrigði Pinot er auðvitað Pinot Noir, en af öðrum afbrigðum má nefna Pinot Meunier (notuð í kampavín), Pinot Gris og svo þrúguna sem hér um ræðir, Pinot Blanc.

Kært barn hefur mörg nöfn, eins og máltækið segir, og það á við um margar þrúgurnar. Í Frakklandi kallast þrúgan Pinot Blanc og á Spáni heitir hún Pinot Bianco. Í Þýskalandi, norður-Ítalíu og Austurríki kallast þrúgan Weißburgunder og í Ungverjalandi heitir hún Fehér Burgundi. Í Kaliforníu eru gerð vín úr Pinot Blanc, en sum Kaliforníuvín sem kölluð eru Pinot Blanc eru reyndar úr þrúgunni Melon de Bourgogne (þetta kom víst í ljós á 9. áratug síðustu aldar og í kjölfarið eru þeir framleiðendur sem eru í raun að rækta Melon de Bourgogne hægt og rólega að skipta yfir í Pinot Blanc).

Líkt og margar aðrar þrúgur þá hafa staðhættir talsverð áhrif á vínin sem Pinot Blanc gefur af sér, og svo gilda auðvitað mismundandi lög og reglur um víngerð í þeim héruðum sem þrúgan er ræktuð í. Oftast eru vínin þurr með góða fyllingu. Sums staðar, s.s. í Alsace og Austurríki, eru líka gerð sætvín úr Pinot Blanc, og þá er heimilt að nota Pinot Blanc við gerð Vin Santo sætvína á Ítalíu. Yfirleitt eru vínin ekki ætluð til langrar geymslu og njóta sín best þegar þau eru ung.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá vínhúsi Judith Beck í Austurríki. Judith lærði víngerð hjá Matthíasi föður sínum, en sótti sér reynslu hjá m.a. Cos d’Estournel í Bordeaux og Errazuriz í Chile. Hún tók svo við keflinu af föður sínum árið 2004 og gerir nú fjölmörg vín úr þeim þrúgum sem þekktastar eru í Austurríki – Pinot Blanc, Gewurztraminer, Blaufrankisch, St. Laurent og Pinot Noir, svo nokkrar séu nefndar. Þá er Judith Beck í hópi 9 vínhúsa í nágrenni Neusiedler-vatns, sem kalla sig Pannobile. Markmið hópsins eru að búa til vín sem endurspegla sérkenni svæðisins – áhugasamir geta lesið sér betur um þetta verkefni hér.

Vín dagsins er gert úr þrúgunni Pinot Blanc, sem í Austurríki kallast Weißburgunder. Að lokinni gerjun í stórum eikarámum fékk vínið að liggja í 5-6 mánuði „sur lie“ – á gerinu.

Beck Weißburgunder 2021 er fölgult á lit, unglegt, með miðlungsþéttan ilm af ylliblómum, ferskjum, perum, sítrónum, eplum, ananas, lychee og örlitlum mangó-keim. Í munni er vínið þurrt, með miðlungs sýru og miðlungsfyllingu. Ylliblóm, sítrónur, epli, ananas, perur, ferskjur og smá seltu í þægilegu eftirbragðinu. Góð kaup (3.399 kr). Fer vel með fiskréttum, salati, ýmsum grænmetisréttum, ljósu fuglakjöti og pasta í rjómasósum.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,0 stjörnur (reyndar ekki nema 44 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur þessu víni 90 stig.

Beck Weißburgunder 2021
Góð kaup
Beck Weißburgunder 2021 fer vel með fiskréttum, salati, ýmsum grænmetisréttum, ljósu fuglakjöti og pasta í rjómasósum.
4
89 stig

Vinir á Facebook