Cantine Povero Priore Barolo 2018

Þegar rauðvín eru annars vegar, þá er fátt sem jafnast á við gott Barolo. Þessi vín eru gerð úr þrúgunni Nebbiolo, sem dafnar vel á vínekrum í Piemonte á NV-Ítalíu. Nebbiolo er líklega upprunnin í Piemonte og hún er ekki ræktuð á mörgum öðrum stöðum. Hún nýtur sín einstaklega vel í Langhe-héraði og allra best er hún á vínekrunum í kringum þorpin Barolo og Barbaresco. Vín úr Nebbiolo eru almennt tannísk, sýrurík og bragðmikil, en frekar fölleit borin saman við önnur rauðvín með svipaða eiginleika.

Barolo-vín hafa löngum verið nefnd „vín konungna, konungur vína“ og verið nefnd í sömu andrá og frönsk eðalvín frá Búrgúndí og Bordeaux. Áður fyrr var talað um eðalvínin fimm frá Evrópu – Bordeaux, Búrgúndí, Barolo, Brunello og Bandol (það er efni í annan pistil að skrifa um Bandol). Líkt og gildir um flest af bestu vínum heims, þá eru þessi vín almennt ekki ódýr, og því ákaflega gaman að rekast á gæðavín á viðráðanlegu verði.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá vínhúsi Povero-fjölskyldunnar í Piemonte. Samkvæmt reglum um Barolo þá þurfa vín að vera í a.m.k. 18 mánuði á eikartunnum og fá a.m.k. 3 ára heildarþroskatíma áður en þau fara í sölu. Margir framleiðendur geyma vínin sín lengur en svo, ýmist í tunnu eða á flöskum, og þetta vín hefur fengið alls 38 mánaða þroskun áður en það fer í sölu. Ársframleiðsla þessa víns er um 20.000 flöskur.

Cantine Povero Priore Barolo 2018 er ljóskirsuberjarautt á lit, með smá þroska í röndinni. Í nefinu finnur maður rósir, trönuber, rauð kirsuber, plómur, hindber, jarðarber, fíkjur, svartan pipar, lavender, vanillu, negul og eikartóna. Þá eru augljós þroskamerki með angan af tóbaki, sveppum, skógarbotni og leðri. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt og tannískt. Góð fylling og gott eftirbragð, með leðri, tóbaki, kirsuberjum, lavender, hindberjum, jarðabarberjum, kirsuberjum og sveppum. 92 stig. Frábær kaup (3.998 kr). Fer vel með kjötréttum (naut, villibráð) og svepparagú með pasta.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,2 stjörnur (104 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Cantine Povero Priore Barolo 2018
Frábær kaup
Cantine Povero Priore Barolo 2018 fer vel með kjötréttum (naut, villibráð) og svepparagú með pasta. Frábær kaup!
4.5
92 stig

Vinir á Facebook