Two Hands Lily’s Garden McLaren Vale Shiraz 2019

Þegar ég hóf minn léttvínsferil féll ég fljótt fyrir shiraz-þrúgunni frá Ástralíu, líkt og svo margir íslendingar gerðu á þeim tíma (og gera kannski enn?). Á þessum tíma minnir mig að úrvalið hafi verið ágætt en svo virðast vinsældir ástralskra shiraz-vína hafa minnkað, a.m.k. fannst mér úrvalið fátæklegra þegar ég flutti aftur til Íslands eftir áratug í Svíþjóð. Kannski misminnir mig bara, en þegar ég flutti heim voru flest þau shiraz-vín sem ég hafði verið að drekka horfin úr hillum vínbúðanna og í staðinn voru komin ódýrari og (það sem mér fannst þá) minna spennandi vín. Ég nöldraði aðeins yfir þessu á sínum tíma, en staðreyndin er víst sú að sum þessara vína sem ég saknaði voru einfaldlega orðin of dýr fyrir venjulega vínunnendur og hættu því að seljast.

Á síðasta ári seldur tæplega 42.000 flöskur af áströlsku rauðvíni, þar af 2 sem kostuð yfir 20.000 krónur. Skiljanlega eru fáir sem kaupa svona dýr vín, en ég ætla samt að hrósa ÁTVR fyrir að hafa dýru vínin líka á boðstólum, því líklega ná þau aldrei að uppfylla kröfur um lágmarkssölu sem gerðar eru til flestra vína. Á síðasta ári má segja að hafi vantað áströlsk vín í verðflokknum 10 – 20 þúsund krónur en úr því hefur nú verið bætt og hægt er að nálgast 2 áströlsk rauðvín á þessu verðbili (og það þriðja er hægt að sérpanta).

Það er mér sérstakt ánægjuefni að sjá að nú eru komin í sérverslun vínbúðanna vín frá ástralska vínhúsinu Two Hands. Two Hands er nefnilega einn besti framleiðandi Shiraz-vína í Ástralíu og vín frá Two Hands hafa reglulega komið inn á lista Wine Spectator yfir bestu vín ársins (árið 2012 varð Two Hands fyrsta vínhúsið til að eiga vín á topp-100 listanum 10 ár í röð!).

Vínhús Two Hands var stofnað árið 1999 og fyrsti árgangurinn leit dagsins ljós árið 2000. Fyrstu árin keyptu Two Hands þrúgur af vínbændum en hafa í kjölfar velgengni vínanna fjárfest í eigin vínekrum. Vínunum hefur fjölgað með árunum, en þess hefur ávallt verið gætt að vínin endurspegli uppruna sinn og einkenni hverrar vínekru.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur úr Garden-línu Two Hands, en það er sú vörulína sem er grunnurinn að velgengni Two Hands. Þekktasta vínið í þessari línu er án efa Bella’s Garden, sem var nánast alltaf inni á topp-100 lista Wine Spectator fyrstu 10 árin sem það var framleitt, þarf af fjórum sinnum á

Vínið er gert úr Shiraz-þrúgunni (100%) og fékk að liggja í 10 daga á hýði áður en það var pressað. Að lokinni gerjun var vínið sett á stórar (300 lítra) tunnur úr franskri eik, stærsti hlutinn notaðar tunnur en um 1/6-hluti fór á nýjar tunnur. Eftir 17 mánuði á tunnum var vínið sett á flöskur en það var ekki hreinsað eða síað fyrir átöppun og því má búast við talsverðu botnfalli í flöskunni.

Two Hands Lily’s Garden McLaren Vale Shiraz 2019 er dökkrúbínrautt á lit, unglegt, með þéttan og kröftugan ilm af kirsuberjum, sólberjum, plómum, svörtum pipar, lavender, apótekaralakkrís, vanillu, súkkulaði, kaffi, ristaðri eik og karamellum. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt og með miðlungstannín. Góð fylling, þétt og gott eftirbragð með plómum, sólberjum, kirsuberjum, pipar, vanillu, kaffi og ristaðri eik. 92 stig. Njótið með góðri steik (lamb eða léttari villibráð, gjarnan grilluð). Mjög gott vín sem er hægt að drekka núna en nýtur sín eflaust betur eftir 3-4 ár og þolir eflaust allt að 10 ár við góðar aðstæður. Tekur aðeins í veskið (11.490 kr) en þetta er líklega eitt besta ástralska shiraz-vínið sem hægt er að nálgast í vínbúðunum um þessar mundir.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,2 stjörnur (þó aðeins 42 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur þessu víni 93 stig og Wine Spectator gefur því 92 stig.

Two Hands Lily’s Garden McLaren Vale Shiraz 2019
Two Hands Lily's Garden McLaren Vale Shiraz 2019 er líklega eitt besta ástralska shiraz-vínið sem hægt er að nálgast í vínbúðunum um þessar mundir.
4.5
92 stig

Vinir á Facebook