Lindeman’s Bin 45 Cabernet Sauvignon 2020

Í gær var ég að nöldra yfir því að öll „gömlu“ áströlsku vínin væru horfin úr hillum vínbúðanna. Sum hafa þó staðist tímans tönn og fást enn í vínbúðunum. Eitt af því er Bin 45 Cabernet Sauvignon frá Lindeman’s. Það á greinilega sinn fasta aðdáendahóp, því það hefur haldið sínum sölutölum undanfarinn áratug og virðist ekkert vera að gefa eftir.

Vínhús Lindeman’s var stofnað fyrir tæpum 200 árum af Henry Lindeman, breskum lækni sem flutti ungur til Ástralíu þar sem hann vildi hefja vínrækt. Vínhús var stofnað 1843 og Lindeman hóf viðamikla ræktun á jörð sinni, byggði hús til víngerðar og geymslur fyrir vínin. Víngerðin var varla farin af stað þegar brennuvargur brenndi öll húsin árið 1850. Lindeman gafst þó ekki upp heldur fór hann að vinna sem læknir við gullnámu í nágrenninu. Fimm árum síðar var hann búinn að endurbyggja öll húsin. Árið 1858 flutti hann fyrsta árganginn til Bretlands þar sem vínin vöktu mikla lukku. Á nokkrum árum var Lindeman farinn að flytja vín sín til fjölmargra landa og hróður hans óx. Henry Lindeman lést árið 1881 og þá töku synir hans við rekstrinum. Fyrirtækið dafnaði, vínekrunum fjölgaði og í dag er ársframleiðslan um 80 milljónir vínflaskna. Í dag er Lindeman’s í eigu ástralska Treasury Wine Group, sem á m.a. áströlsku vínhúsin Penfold’s, Wolf Blass, 19 Crimes og Wynn’s, auk bandarískra vínhúsa, m.a. Beringer, Stag’s Leap og Beaulieu.

Vín dagsins

Vín dagsins er áðurnefnt Bin 45 Cabernet Sauvignon. Vínið er flokkað sem vín frá Suð-Austur Ástralíu og samkvæmt því er heimilt að nota í það þrúgur frá öllum vínekrum í SA-Ástralíu (sem eru nánast öll vínhéruð Ástralíu að undanskildum þeim sem eru á SV-horni Ástralíu). Vínið er sagt fá þroskun í blöndu af franskri og amerískri eik, en ekki er tekið fram hvort vínið hafi farið á tunnur eða fengið eikarstafi/-flísar í stáltönkum. Vínið fékk ég hjá Ölgerðinni sem hluta af stuðningi við WSET-3 námið og eru Ölgerðinni færðar bestu þakkir fyrir.

Lindeman’s Bin 45 Cabernet Sauvignon 2020 er rúbínrautt á lit, unglegt með miðlungsþéttan ilm af kirsuberjum, rifberjum, jarðarberjum, svörtum pipar, myntu, sólberjum og apótekaralakkrís. Vínið er þurrt, með rúmlega miðlungs tannín og sýru, miðlungs fylling. Í eftirbragðinu eru einkum kirsuber, jarðarber, mynta og sólber. Ágæt kaup (2.499 kr). 85 stig. Fer vel með grilluðu lambi og smáréttum hvers konar. Vínið ætti að drekka ungt og hentar ekki til lengri geymslu.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,5 stjörnur (751 umsögn þegar þetta er skrifað).

Lindeman’s Bin 45 Cabernet Sauvignon 2020
Ágæt kaup
Lindeman's Bin 45 Cabernet Sauvignon 2020 fer vel með grilluðu lambi og smáréttum hvers konar.
3.5
85 stig

Vinir á Facebook