Montes Cabernet Sauvignon Reserva 2018

Í fyrradag skrifaði ég um hið ágæta Montes Sauvignon Blanc Reserva 2019 og vín dagsins – fyrsta páskavín ársins – er í sömu línu. Ég hef ekki skrifað um þetta vín í nokkur ár og þessi umfjöllun því orðin löngu tímabær. Það væri auðvitað hægt að skrifa langa grein um vínhús Montes í Chile en ég held að ég hafi gert því góð skil í fyrri færslum. Það má þó taka fram að veturinn 2017 var víst einn sá blautasti í mörg ár í Colchagua-dalnum í Chile. Þetta vakti mikla lukku hjá vínbændum því vatnsbirgðir svæðisins fylltust vel og veitti víst ekki af eftir þurr tímabil á undan.

Annars er ég nú kominn í rúmlega vikulangt páskafrí og vonandi get ég notað tímann til að skrifa um nokkur vín sem ég hef smakkað og bíða umfjöllunar.

Vín dagsins

Vín dagsins tilheyrir hinni s.k. klassísku línu frá Montes. Í flestum vínanna í þessari línu gerir maður góð kaup og óhætt að mæla með þeim. Þetta tiltekna vín er gert úr þrúgunum Cabernet Sauvignon (85%) og Merlot (15%). Tæpur helmingur vínsins lá í frönskum eikartunnum í 8 mánuði (tunnurnar höfðu verið notaðar 1-2 sinnum áður) en afgangurinn lá í stáltönkum. Lokablöndun var svo gerð fyrir átöppun á flöskur.

Montes Cabernet Sauvignon Reserva 2018 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu finnur maður sólber, plómur, bláberjasultu, fjólur, myntu og ögn af súkkulaði. Í munni eru miðlungstannín, ágæt sýra og þokkalegur ávöxtur. Sólber, bláber, plómur og dökkt súkkulaði í ágætu eftirbragðinu. Miðlungsfylling og ágætt jafnvægi. 87 stig. Góð kaup (2.259 kr). Fer vel með rauðu kjöti, pylsum (ekki samt þessum klassísku íslensku heldur Miðjarðarhafspylsum) og ostum. Ágætt grillvín. Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3.7 stjörnur (2.834 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Spectator gefur þessu víni 85 stig en fyrri árgangar hafa fengið 84-90 stig. Robert Parker hefur ekki skrifað um þennan árgang en fyrri árgangar hafa fengið 85-90 stig.

Montes Cabernet Sauvignon Reserva 2018
Montes Cabernet Sauvignon Reserva 2018 fer vel með rauðu kjöti, pylsum og ostum, auk þessa að vera ágætis grillvín.
4
87 stig

Vinir á Facebook