Torre Muga 2016

Vínin frá Bodegas Muga eru flestum íslenskum vínáhugamönnum vel kunn og eflaust margir sem nefna Reservuna þeirra sem sitt uppáhalds rauðvín. Vínhús Muga er á margan hátt sérstakt og áhugavert vínhús. Þeir eru til að mynda eina vínhúsið á Spáni sem smíðar sínar eigin tunnur. Þá er einnig áhugavert að Muga gerir ekkert Crianza, heldur er Reserva „einfaldasta“ rauðvínið frá Muga.

Alls gerir vínhús Muga 10 mismunandi vín og sjö þeirra eru fáanleg hérlendis – eitt hvítt, tvö rósa og fjögur rauð. Aðeins vantar tvö Cava (Conde de Haro) og svo flaggskipið Aro.

Undanfarin 15-20 ár hafa verið hagstæð fyrir vínbændur í Rioja. Flestir árgangar hafa verið góðir, með örfáum undantekningum þó. Árið 2016 var til að mynda eitt besta árið á þessari öld nánast hægt að ganga að gæðunum vísum í vínum frá þessum árgangi. Það á líka við um vínin frá Muga sem flest hafa fengið mjög góðar umsagnir frá helstu vínskríbentum.

Vín dagsins

Vín dagsins er eitt af stóru vínunum í vínbúðunum, ef svo má að orði komast. Líkt og önnur Rioja-rauðvín er vínið að stofni til Tempranillo, ásamt dálitlu af Mazuelo og Graciano. Gerjun fer fram í gríðarstórum eikartunnum án viðbættra gersveppa og án ytri hitastýringar. Sjálft gerjunarferlið getur tekið 2-3 vikur. Að því loknu fær vínið að hvíla í nýjum tunnum úr franskri eik, og vínið er svo hreinsað með eggjahvítum áður en því er tappað á flöskur (til að minnka botnfallið).

Torre Muga 2016 er dökk-kirsuberjarautt á lit, unglegt með flotta dýpt. Í nefinu er þung angan af þroskuðum plómum, kirsuberjum, leðri, vanillu, súkkulaði, fíkjum, sólberjum, eik og smá anís. I munni eru þétt tannín, frískleg sýra og flottur ávöxtur. Kirsuber, leður, tóbak, sólber, eik og kakó í þéttu eftirbragðinu sem heldur sér vel og lengi. Vínið er í frábæru jafnvægi og á eflaust eftir að sýna sínar bestu hliðar næstu 10-15 árin. Þegar að er svona ungt hefur það þó gott af umhellingu 45-60 mínútum fyrir umhellingu. Vínið steinlá með ribeye-steikinni og fer eflaust líka vel með lambi, villibráð og góðum ostum, eða bara eitt og sér. 97 stig. Stórkostlegt vín og frábær kaup þó það komi aðeins við budduna (11.999).

Wine Spectator gefur þessu víni 95 stig og Robert Parker gefur því 96 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,5 stjörnur (265 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Torre Muga 2016
Torre Muga 2016 er stórkostlegt vín sem steinliggur með nautasteikinni, lambinu og villibráðinni eða bara eitt og sér.
5
97 stig

Vinir á Facebook