La Chablisienne Chablis Premier Cru Vaulorent 2017

Ég hef áður sagt að það er alltaf rétti tíminn fyrir Chablis, og ég ætla að halda fast í þá skoðun, því gott Chablis er eiginlega alltaf viðeigandi (líkt og gott kampavín). Það sést líka glögglega þegar umsagnir mínar um þau hér á síðunni eru skoðaðar. Ég hef áður verið með ítarlega pistla um Chablis og læt því duga að vísa í einn slíkan, vilji menn fræðast meira um þessi dásamlegu vín.

Vín dagsins

Vín dagsins er auðvitað Chablis og kemur frá samvinnufélaginu La Chablisienne, sem ég hef áður fjallað lítillega um í nokkrum pistlum. Vínekran sem þrúgurnar koma af kallast Vaulorent og er skilgreind sem premier cru, en alls eru 40 premier cru-vínekrur í Chablis.

La Chablisienne Chablis Premier Cru Vaulorent 2017 er fölgullið á lit, unglegt með fína tauma. Í nefinu finnur maður perur, sítrónur, steinefni, rauð epli og smá hunang. Í munni er vínið smjörkennt en jafnframt frísklegt með fínlega sýru. Mjög elegant vín með sítrus, steinefnum, mandarínum og smá vanillu í ljúffengu eftirbragðinu. Fer ákaflega vel með skelfiski, ljósu fuglakjöti, hvítmygluostum eða bara eitt og sér. 92 stig. Góð kaup (4.998 kr). Endist vel næsta áratuginn eða svo.

Robert Parker gefur þessu víni 91 stig.

La Chablisienne Chablis Premier Cru Vaulorent 2017
Einstaklega elegant premier cru Chablis sem fer ákaflega vel með skelfiski, ljósu fuglakjöti, hvítmygluostum eða bara eitt og sér.
5
92 stig

Vinir á Facebook