Christophe Pichon Diapason 2018

Vínhús Christophe Pichon er lítið fjölskyldufyrirtæki í Rónarhéraði. Fjölskyldan á vínekrur í Condrieu, Cote Rotie, Saint Joseph, Cornas og fleiri svæðum í Rónarhéraði. Christophe tók við fyrirtækinu af föður sínum fyrir tæpum 30 árum og hefur hægt og rólega byggt það upp og aukið umsvifin. Frá fjölskyldunni koma líka venjuleg „sveitavín“ eða Vin de Pays, þar á meðal vín dagsins.

Þrúgan Viognier er þekktust í Rónarhéraði Frakklands, en hefur þó þrifist vel í báðum Ameríku-heimsálfunum, Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Suður-Afríku. Þrúgan gefur af sér hvítvín með góða fyllingu og karakter, en sums staðar er hún notuð með Syrah í rauðvín. Þrúgan var víst nálægt því að deyja út um miðja síðustu öld og á tímabili voru framleidd minna en 2.000 lítrar af Viognier en á síðustu áratugum hafa vinsældur þrúgunnar aukist. Ef leitað er að Vigonier á vef vínbúðanna koma upp 14 vín, þar af eitt rauðvín.

Vín dagsins

Vínið Diapason er gert úr hreinu Viognier og er sveitavín frá Seyssuel í Rónarhéraði. Vínið er látið liggja í 12 mánuði á notuðum eikartunnur áður en það fer á flöskur.

Christophe Pichon Diapason 2018 er ljósgullið í glasi, unglegt með fallega tauma. Í nefinu finnur maður hunang, sítrónur, gul epli og apríkósur. Í munni er vínið smjörkennt, með fínlega sýru og góða fyllingu. Hunang, steinefni, sítrónur og furuhnetur í ljúffengu eftirbragðinu. Fer vel með skelfiski, ljósu fuglakjöti, austurlenskum mat og hvítmygluostum. Dásamlegt vín. 92 stig.

Það eru fáar umsagnir á Vivino.com (27 þegar þetta er skrifað) en meðaleinkunnin er 4.0.

Christophe Pichon Diapason 2018
Dásamlegt hvítvín úr Viognier sem fer vel með skelfiski, ljósu fuglakjöti, austurlenskum mat og hvítmygluostum.
4.5
92 stig

Vinir á Facebook