Jafnast nokkuð á við rautt og rautt?

Þeir sem þekkja mig vita að ég er nokkuð duglegur við grillið á sumrin. Reyndar er það þannig að á Instagramminu mínu birtist fátt annað en myndir af því sem ég er að grilla… Nýlega opnaði aftur sælkeraverslun á Bitruhálsinum, þar sem Osta- og Smjörsalan var lengi til húsa. Þarna hefur áður verið sælkeraverslun í þessu húsnæði en hún lokaði fyrir 2 árum eða svo. Um daginn leit ég við og fékk ákaflega girnilegar og gómsætar cote du boeuf-steikur sem ég hef ekki séð áður í íslenskum kjötbúðum. Cote du boeuf eru bestu ribeye-bitarnir og á beini. Þessar steikur hittu beint í mark og mér fannst því tilvalið að prófa þær aftur. Í sælkerabúinni fæst líka waguy-nautakjöt sem ég hafði ekki prófað en lengi langað til að smakka. Ég lét því til leiðast og keypti waguy-spjót í forrétt. Í stuttu máli þá er þetta besta kjöt sem ég hef smakkað! Það datt eitt augnablik á grillið eftir að hafa fengið smá ólífuolíu, salt og pipar – og það var slegist um bitana!

Á meðan við gæddum okkur á waguy-spjótunum fengu cote du bouf steikurnar að hægeldast á grillinu. Þær slógu líka í gegn og nutu sín vel með GSM-blöndunni frá Tenet.

Vín dagsins

Vínhús Tenet er samstarfsverkefni Chateau Ste. Michelle í Washington-fylki og Michel Gassier í Rónarhéraði. Vínekrur Tenet eru í Washington-fylki en öll meðferð á vínviðnum og þrúgunum er eins og í Rónarhéraði Reynt er að lágmarka aðkomu eikar og vínin fara því á stórar, notaðar eikartunnur. Líkt og í Rónarhéraði leikur Syrah stórt hlutverk í víngerðinni og Tenet framleiðir 4 mismunandi Syrah-vín frá Washington undir nafninu Pundit og eitt undir nafninu Le Fervent frá Costières de Nîmes, sem er syðsta vínhéraðið í Rón. Þá framleiðir Tenet rósavín í Costières de Nîmes og tvö blönduð rauðvín, þar á meðal vín dagsins. Hér er um að ræða klassíska GSM-blöndu sem er algeng í suðurhluta Rónardals, en vínið er gert úr 43% Grenache, 35% Syrah og 22% Mourvèdre.

Tenet GSM 2015 er dökk-kirsuberjarautt með góða dýpt, unglegt að sjá, með fallega tauma í glasinu. Í nefinu eru bláber, hindber, kirsuber, pipar og smá lakkrís. Í munni eru mjúk tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Bláber, lakkrís, súkkulaði og krydd (negull og kóríander) í þéttu og góðu eftirbragðinu. Frábært vín sem féll stórkostlega vel með grilluðu cote du boeuf. 95 stig.

Wine Spectator gefur þessu víni 91 stig og Robert Parker gefur 94 stig. Fyrri árgangar hafa fengið 90-95 hjá Robert Parker og Wine Spectator.

Jafnast nokkuð á við rautt og rautt?
Stórkostlegt vín úr klassískri gsm-blöndu. Fer ákaflega vel með góðri nautasteik, villibráð og ostum - eða bara eitt og sér. Frábært vín!
5
95 stig

Vinir á Facebook