Terratini Primitivo di Manduria

Terratini Primitivo di Manduria 2016

Héraðið Puglia (eða Apúlía eins og það er víst kallað á íslensku) er staðsett á hælnum á ítalska stígvélinu. Sumrin þarna eru þurr og heit, en veturnir mildir og blautir. Héraðið er eitt mikilvægasta ólífuræktarhérað Ítalíu, en þar er tæpur helmingur allra ólífutrjáa á Ítalíu. Í héraðinu er líka mikil vínrækt og þar nýtur þrúgan Primitivo sín afar vel. Þrúgan er líka ræktuð í Kaliforníu þar sem hún gengur undir nafninu Zinfandel.

Til að vín megi kallast Primitivo di Manduria DOC þurfa þau að vera 100% Primitivo. Í Apúlíu eru 39 skilgreind vínræktarsvæði – 4 DOCG, 29 DOC og 6 IGT – en fyrir þá sem vilja kynnast þessu svæði betur þá er ágætt yfirlit á þessari vefsíðu.

Vín dagins

Vín dagsins kemur frá danska fyrirtækinu Taster Wine, sem kaupir vínið frá vínbændum í Manduriu og selur undir merkinu Terratini, en framleiðsluferlið fylgir að öllu leyti reglum DOC um Primitivo di Manduria. Vínið er látið liggja á frönskum eikartunnum í hálft ár áður en því er tappað á flöskur.

Terratini Primitivo di Manduria 2016

Terratini Primitivo di Manduria 2016 er dökkkirsuberjarautt á lit, með sæmilega dýpt og dálítinn þroska. Í nefinu finnur maður sultuð kirsuber og sólber, leður og krydd. Í munni eru mjúk tannín, miðlungs sýra og þokkalegur ávöxtur. Kirsuber, súkkulaði og sulta í ágætu eftirbragðinu. Vel gert Primitivo en aðeins of sætt fyrir minn smekk. 89 stig. Ágæt kaup (3.199 kr). Fer vel með nauti, lambi og svíni, einkum ef kjötið hefur haft viðkomu á grillinu.

Notendur vivino.com gefa þessu víni 4.0 í einkunn (220 umsagnir en ekki skipt niður á árganga).

Terratini Primitivo di Manduria
Terratini Primitivo di Manduria 2016
Vel gert Primitivo en aðeins of sætt fyrir minn smekk. 89 stig. Ágæt kaup (3.199 kr). Fer vel með nauti, lambi og svíni, einkum ef kjötið hefur haft viðkomu á grillinu.
4
89 stig

Vinir á Facebook