CUNE Rioja Reserva 2015

Vínhús CUNE rekur sögu sína til ársins 1879, stofnað af bræðrunum Eusebio og Raimundo Real de Asúa. Fullu nafni heitir vínhúsið Compañía Vinícola del Norte del España eða Norður-spænska vínfélagið, skammstafað CVNE. Strax á fyrsta árganginum sem vínhúsið sendi frá sér var stafsetningarvilla á flöskumiðanum þar sem stóð CUNE í stað CVNE. Þar sem vínið fékk mjög góðar viðtökur ákváðu bræðurnir að halda þessari skammstöfun óbreyttri og þess vegna stendur enn CUNE á flöskumiðanum í dag. Vefsíðan þeirra er hins vegar á www.cvne.es og þar er farið ítarlegar yfir sögu vínhússins.

Vínin frá CVNE hafa hlotið fjölda viðurkenninga og árið 2013 var vín þeirra Imperial Gran Reserva 2004 valið vín ársins hjá Wine Spectator. Í vínbúðunum er hægt að fá 6 mismunandi rauðvín frá CUNE, þar á meðal Imperial Gran Reserva (reyndar 2012 árgangur sem í hillunum núna) og 1 hvítvín. Þessi vín hafa yfirleitt verið nokkuð örugg kaup og fallið vel í kramið hjá íslenskum vínunnendum.

Vín dagsins

Vín dagsins er auðvitað frá CUNE, Reserva árgangur 2015. Vínið er 85% Tempranillo og hin 15% koma af þrúgunum Garnacha Tinta, Graciano og Mazuelo. Að lokinni gerjun fékk vínið að liggja í 18 mánuði á 225 lítra tunnum úr franskri og amerískri eik. Að lokinni átöppun á flöskur fékk vínið svo að hvíla í 18 mánuði áður en það var sett á markað.

CUNE Rioja Reserva 2015 er rúbínrautt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu finnur maður nokkuð klassískan ilm af rauðum berjum, lakkrís, vanillu, pipar og eik. Í munni eru miðlungstannín, ágæt sýra og fínn ávöxtur. Góður ávöxtur í eftirbragðinu, lakkrís og skógarber og smá krydd. Fer vel með hvers konar grillkjöti, pottréttum og ostum. Góð kaup (2.999 kr). 90 stig.

Notendur Vivino.com gefa þessum árangi 3.8 í einkunn (2.927 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker og Wine Spectator gefa 90 stig. James Suckling gefur 93 stig og Wine Enthusiast gefur 92 stig.

CUNE Rioja Reserva 2015
CUNE Rioja Reserva 2015 er skothelt rauðvín sem fer vel með hvers konar grillkjöti, pottréttum og ostum. Góð kaup!
4
90 stig

Vinir á Facebook