E. Guigal Gigondas 2016

Gigondas heitir hérað sem staðsett er í suðurhluta Rónardalsins. Víngerð þar á sér langa sögu – allt aftur til veru Rómverja í Frakklandi. Gigondas hefur lengi verið álitið vera litli bróðir Chateauneuf-du-Pape, en það var hluti af Côtes du Rhône-Villages fram til ársins 1971, þegar það var skilgreint sem sérstakt víngerðarsvæði (AOC).

Í Gigondas eru aðallega framleidd rauðvín, en örlítið er um rósavín frá héraðinu. Hvítvín hafa hins vegar ekki verið gerð í Gigondas um langt skeið (það munu vera til heimildir um hvítvín frá 1952 en ekki eftir það). Samkvæmt reglum héraðsins verða rauðvínin að innihalda minnst 80% Grenache, minnst 15% Syrah eða Mourvedre, og að hámarki 10% af öðrum rauðum þrúgum í Rónardal (nema Carignan). Góð vín frá Gigondas geta þolað allt að 10 ára geymslu, en þar sem þau eru að mestu leyti gerð úr Grenache þá henta ekki öll Gigondas-rauðvín til lengri geymslu. Vínin eru yfirleitt nokkuð öflug og hafa oft verið nefnd dálæti veiðimannsins, því þau henta vel með villibráð.

Vínhús E. Guigal þarf vart að kynna fyrir íslenskum vínunnendum enda hafa þeirra vín verið fáanleg í hillum vínbúðanna um áraraðir, og Côtes du Rhône rauðvínið með þeim vinsælustu á Íslandi.

Vín dagsins

Vín dagsins er eins og pistillinn gefur til kynna frá Gigondas-héraði, úr smiðu E. Guigal. Það er gert úr 70% Grenache, 20% Syrah og 10% Mourvèdre og hefur fengið að liggja í 2 ár á eikartunnum (helmingur tunnanna er nýr en helmingurinn notaður). Árið 2015 þótti einstaklega gott í norðurhluta Rónardalsins og árið 2016 þykir nánast jafngott í suðurhlutanum og því von á mjög góðum vínum þaðan á næstunni.

E. Guigal Gigondas 2016 er fallega fjólurautt, unglegt með góða dýpt. Í nefinu finnur maður lakkrís, plómur og skógarber, ásamt mildum útihúsum. Í munni eru góð tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Kirsuber, trönuber, negull og kryddpipar ásamt mildum eikarkeim. Fer ákaflega vel með villibráð, nauti, lambi og góðum ostum. Mjög gott núna og mun njóta sín vel næstu 7-10 árin. Mjög góð kaup (4.499 kr). 92 stig.

Frá 2004 hafa aðeins 2 árgangar fengið minna en 90 stig hjá Wine Spectator (2005 og 2009 fengu báðir 89 stig) og sömu sögu er að segja af Robert Parker. 2016 fær 92 hjá Robert Parker og notendur Vivino.com gefa þessu víni 4.0 stjörnur (58 umsagnir þegar þetta er skrifað).

E. Guigal Gigondas 2016
Gigondas hefur lengi verið kallað litli bróðir Chateauneuf-du-Pape og oft hægt að gera mjög góð kaup í vínum þaðan. E. Guigal Gigondas 2016 er talandi dæmi um slíkt.
4.5
92 stig

Vinir á Facebook