Pago de Los Balagueses Chardonnay 2017

Fyrir skömmu fjallaði ég um alveg prýðlegt Syrah frá vínhúsi Vegalfaro og nú er komið að hvítvíni frá sama vínhúsi. Vínhús Vegalfaro er staðsett í Utiel-Requena í nágrenni Valencia. Chardonnay er ekki fyrsta þrúgan sem kemur upp í hugann þegar spænsk hvítvín eru annars vegar, en auðvitað getur maður samt búist við því að hún sé ræktuð þar líkt og í flestum öðrum vínræktarsvæðum heimsins. Engu að síður þá fer ekki jafn mikið fyrir hvítvínum í spænskri víngerð, séu þau borin saman við rauðvínin, og á Pago-vínekrunum fer auðvitað mesta plássið undir rauðar þrúgur.

Vín dagsins

Vínviðurinn sem gefur af sér þrúgurnar í þetta vín er um 30 ára gamall og liggur í 780 metra hæð yfir sjávarmáli. Víngerðarferlið sjálft er allt lífrænt og að lokinni gerjun er vínið látið liggja í litlum (225 lítra) tunnum úr franskri eik, það sem 2/3 þeirra eru nýjar en 1/3 hefur verið notaður áður. Eftir átöppun á flöskur fær vínið svo að bíða í minnst 6 mánuði áður en það fer í sölu.

Pago de Los Balagueses Chardonnay 2017 er strágullið á lit og fallegt í glasi. Í nefinu finnur maður angan af sítrus, eplum, perum, ananas og frönsku eikinni ásamt ögn af steinefnum. Í munni er fín sýra og góður ávöxtur. Vínið er þurrt með góða fyllingu og þægilegt eftirbragð þar sem epli, perur, ananas, smjör og steinefni ráða ferðinni. Ákaflega matarvænt vín – hafið með ljósu fuglakjöti, skelfiski, feitum fiski eða bara eitt og sér! 90 stig, mjög góð kaup (3.590 kr). Kannski jólavínið fyrir þá sem vilja hvítvín með matnum?

Pago de Los Balagueses Chardonnay 2017
4
90

Vinir á Facebook