Gorka Izagirre G22

Það er alltaf jafn gaman að smakka nýja þrúgu í fyrsta skipti. Það er líka mjög gaman að bragða í fyrsta sinn vín frá vínrætarsvæði sem maður hefur ekki kynnst áður. Eftir því sem ég best veit hef ég ekki áður prófað vín frá Baskahéruðum Spánar, en það er á hreinu að ég hef ekki áður smakkað vín úr þrúgunni Hondarrabi Zerratia. Þessi þrúga mun einkum vera ræktuð í Baskahéruðunum og lítið fer fyrir henni á öðrum vínræktarsvæðum, en þó muni menn eitthvað hafa verið að prófa sig áfram með þrúguna í Chile.

Vín dagsins

Eins og áður segir kemur vín dagsins frá Baskahéruðum Spánar, en vínræktarsvæðið sjálft kallast Bizkaiko Txakolina.

Gorka Izagirre G22 er strágult á lit og fallegt í glasi. Í nefinu eru greipaldin, hunangsmelónur og nýslegið gras. Í munni er vínið þurrt með ríflega sýru, hunang og sítrónur í ágætu eftirbragðinu. 87 stig. 2.999 kr. Fer vel með fiski, ljósu kjöti og ostum.

Notendur Vivino.com gefa þessu víni 3.8 stjörnur (150 umsagnir). Ég fann ekki aðrar umsagnir um þennan árgang en Wine Spectator gaf 2015 árgangnum 89 stig

Gorka Izagirre G22
Fer vel með fiski, ljósu kjöti og ostum
3.5
87 stig

Vinir á Facebook