Áramótauppgjör Vínsíðunnar

Þá er enn eitt árið á enda, hið níunda í sögu Vínsíðunnar og við hæfi að líta um öxl.
Hæst ber auðvitað að ritstjórinn gifti sig með pompi og prakt í sumar, hélt glæsilega veislu i blíðskaparveðri í Reykjavík þar sem Palli frændi fór á kostum í veislustjórninni!
Hvað varðar Vínsíðuna sjálfa ber hæst að skipt var um vefþjón um miðjan apríl eftir að Vínsíðan lenti í miðri milliríkjadeilu milli Telia Sonera og Cogent Communications (sjá færslu þar að lútandi).  Ég yfirgaf því Ipower sem hafði hýst Vínsíðuna í 6 ár og fór yfir til Hostgator sem bauð betri þjónustu fyrir lægra verð.
Umferð um Vínsíðuna hefur aukist til muna síðastliðið ár. Samtals voru 33.697 heimsóknir á Vínsíðuna árið 2008 (fram til þess að þessi pistill er skrifaður) og 141.899 flettingar, sem gera að jafnaði 92 heimsóknir á dag og 389 flettingar!  Það er næstum þreföldun frá árinu 2007 þegar heimsóknir voru 12.028 og flettingar 37.404.  Að meðaltali skoðar þó hver gestur 3 síður og ritstjóri er nokkuð ánægður með það.
Alls birtust 39 nýjar umsagnir á árinu en auðvitað voru fleiri vín prófuð því hvert vín fær jú helst ekki nema eina umsögn.
Vonandi verða fleiri umsagnir á nýju ári og fleiri góð vín rannsökuð til hlítar.
Ritstjóri óskar öllum lesendum farsældar á nýju ári og þakkar samfylgdina á liðnum árum.

Vinir á Facebook