Ársuppgjör Vínsíðunnar – Vín ársins 2022

Árið 2022 var á vissan hátt rólegt á Vínsíðunni. Þó ég hafi samt verið nokkuð duglegur að smakka vín þá var ég ekki jafn duglegur að skrifa um þau. Það eru um 80-90 umsagnir og víndómar sem bíða birtingar og munu vonandi líta dagsins ljós á nýju ári. Birtar umsagnir eru aðeins 65 í ár – 16 freyðivín, 6 hvítvín, 42 rauðvín og 1 sætvín.

Þrettán vín fengu 5 stjörnur hjá mér í ár sem er líklega með mesta móti og 20 fengu 4,5 stjörnur. Lægsta einkunn í ár voru 3,5 stjörnur, en ég hef reyndar almennt ekki birt umsagnir um vín sem fá lægri einkunn en svo (og reyni að forðast vín sem eru líkleg til að fá slíka einkunn).

Alls hafa rúmlega 11.000 manns litið við á Vínsíðunni á þessu ári, sem mér finnst nokkuð gott í ljósi þess að hér var lítið að gerast seinni hluta ársins. Líkt og undanfarin ár þá eru mest lesna færslan um það hvernig eigi að elda svínarif (eða eins og ég elda þau). Mest lesni víndómurinn á þessu ári var um Coto de Imaz Rioja Reserva 2017. Þá lásu einnig margir eldri færslur um bestu kassavínin í vínbúðunum (sem er frá 2015) og greinina um skemmd vín.

Líkt og undanfarin ár vel ég Vín ársins á Vínsíðunni og í ár var valið frekar erfitt. Í ár voru nokkrir sterkir kandidatar, t.d. Antica Fratta Franciacorta Essence Brut 2016 (líklega bestu freyðvínskaupin í Vínbúðunum um þessar mundir), Marques de Murrieta Capellania Reserva 2016 (sem er því miður ekki lengur fáanlegt í vínbúðunum), Joseph Drouhin Gevrey-Chambertin Premier Cru 2017 og Chryseia 2018 en þessi 3 síðastnefndu voru öll í dýrari kantinum fyrir vín ársins, að mínu mati.

Vín ársins 2022 birtist reyndar ekki á Vínsíðunni fyrr en í dag, í næst síðastu færslu ársins. Að þessu sinni valdi ég Contino Reserva 2017 sem er alveg frábært vín og á mjög góðu verði (4.779 kr). Þetta vín hefur hlotið frábæra dóma ár eftir ár og sannkallað gleðiefni að það sé nú fáanlegt í Vínbúðunum og vonandi verður það áfram í hillum vínbúðanna.

Ég óska öllum lesendum Vínsíðunnar gleðilegs nýs árs og þakka fyrir samfylgdina undanfarna áratugi. Megi nýtt ár færa ykkur gleðistundir og góð vín.

Vinir á Facebook