Coto de Imaz Rioja Reserva 2017

Vínhús El Coto í Rioja telst varla gamalt samkvæmt þarlendum mælikvarða – stofnað árið 1970. Vínhúsið hefur dafnað og vaxið og það er nú með stærstu vínhúsum Rioja. Fyrsta víngerðin, sem var tekin í notkun árið 1976, varð fljótlega of lítil og árið 2004 var tekin í notkun ný víngerð, sem þá var sú stærsta í Rioja. Árið 2014 var svo tekin í notkun ný víngerð þar sem eingöngu eru framleidd hvítvín.

El Coto framleiðir vín í 6 mismunandi vörulínum, sem flestar innihalda rauðvín og hvítvín, og í sumum þeirra er einnig rósavín.

Vín dagsins

Vín dagsins er rauðvín í línu sem kallast Coto de Imaz, en í henni eru rauð og hvít reserva ásamt rauðu gran reserva. Þetta er hreint tempranillo, sem samkvæmt venju liggur fyrst 18 mánuði á amerískum eikartunnum áður en það liggur svo aðra 18 mánuði á flöskum. Vínið hefur, að mér sýnist, fallið vel í kramið hjá íslenskum vínunnendum og er nú eitt mest selda Rioja-rauðvín á Íslandi. Ársframleiðslan mun vera um 100.000 kassar.

Vínið hefur líka hlotið góðar viðtökur hjá gagnrýnendum. Þannig hafa síðustu 3 árgangar (2015-2017) fengið 90-91 stig hjá Wine Spectator.

Coto de Imaz Rioja Reserva 2017 er kirsuberjarautt á lit, unglegt en sýnir þó smá þroskamerki. Í nefinu finnur maður kirsuber, vanillu, leður, appelsínubörk og krydd, ásamt örlitlum tóbaks- og kakókeim. Í munni er góð fylling, með ágæt tannín, góð sýra og fínn ávöxtur. Kirsuber, vanilla, tóbak og eik koma vel fram í eftirbragðinu, ásamt kryddjurtum á borð við rósmarín. 91 stig. Frábær kaup (2.799 kr). Hefur gott af 3-4 ára geymslu en nýtur sín samt vel nú þegar með góðri steik, kryddpylsum eða þéttum ostum. Sýnishorn frá innflytjanda.

Wine Spectator gefur þessu víni 90 stig. Notendur Vivino gefa þessum árgangi 3,8 stjörnur (3.870 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Coto de Imaz Rioja Reserva 2017
Frábær kaup!
Coto de Imaz Rioja Reserva nýtur sín vel með góðri steik, kryddpylsum eða þéttum ostum. Frábær kaup!
4.5
91 stig

Vinir á Facebook