Alþjóðlegi rósavínsdagurinn

Margar þrúgur og vín eiga „sinn“ dag, þar sem vínunnendur eru hvattir til að prófa tiltekið vín á tilteknum degi. Bandaríkjamenn hafa verið duglegir við þetta og nánast hvað sem er á „sinn dag“ þar vestra. Svo eru einnig alþjóðlegir dagar tileinkaðir hinu og þessu. Þannig vill svo til að sum vín eða þrúgur geta átt „National“ dag og „International“ dag. Dæmi um það eru rósavín.

Rósavínsdagarnir eru a.m.k. tveir og báðir í júní. Í Bandaríkjunum er „National“ rósavínsdagurinn haldinn hátíðlegur annan laugardag í júní. Alþjóðlegi rósavínsdagurinn er hins vegar 24. júní ár hvert. Ég missti af bandaríska deginum en að sjálfsögðu fékk ég mér rósavín í dag!

Úrvalið af rósavínum í vínbúðunum er alveg þokkalegt um þessar mundir. Við leit á vef vínbúðanna koma upp 79 vín (750 ml flöskur), þar af 25 á sérpöntunarlista. Unnendur góðra rósavín (sem mig grunar að séu allt of fáir á Íslandi) ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi til að fagna rósavínsdeginum (það er ekkert of seint að fagna á morgun).

Vín dagsins

Vín dagsins kemur úr smiðju E. Guigal sem íslendingar þekkja vel. Að sjálfsögðu er um rósavín að ræða, og vínið er gert úr þrúgunum Grenache (70%), Cinsault (20%) og Syrah (10%). Alls voru framleiddir um 30.000 kassar af þessu víni. Líkt og flest rósavín er best að drekka það ungt (helst á árinu 2022).

E. Guigal Cotes du Rhone Rosé 2020 er laxableikt á lit, jafnvel smá kopartónar, og fallegt í glasi. Í nefinu finnur maður jarðarber, kirsuber, ferskjur og hunangsmelónur. Í munni er miðlungsfylling, miðlungs sýra en það fer skiljanlega lítið fyrir tannínum. Ferskjur, jarðarber og melóna í góðu eftirbragðinu. 88 stig. Góð kaup (2.899 kr). Ljómandi gott rósavín sem fer vel með skelfiski, fuglakjöti og sem fordrykkur á fallegum sumardegi, t.d. á alþjóðlega rósavínsdeginum!

Robert Parker gefur þessu víni 88 stig og Wine Spectator gefur því 87 stig. Notendur Vivino gefa 3,7 stjörnur (343 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Alþjóðlegi rósavínsdagurinn
Góð kaup
Ljómandi gott rósavín sem fer vel með skelfiski, fuglakjöti og sem fordrykkur á fallegum sumardegi.
4
88 stig

Vinir á Facebook