Gerard Bertrand Crémant de Limoux Brut 2020

Það er eitthvað svo heillandi við góð freyðivín. Við opnum þau þegar við viljum gleðjast saman og skála fyrir afmælisbörnum, nýstúdentum og brúðhjónum. Þau eru frábærir fordrykkir í veislum og svalandi á heitum sumardögum. Þau eru góð í hvers kyns kokteila og þau eru frábær með nánast öllum mat.

Flestir kannast við kampavín, hvort sem viðkomandi drekka áfengi eða ekki. Margir þekkja líka Cava frá Spáni og Prosecco frá Ítalíu seljast sem aldrei fyrr. Við skoðun á vef vínbúða ÁTVR koma upp 262 freyðvín (750 ml flöskur) – þar af 180 af áðurnefndri þrennu (kampavín, Cava og Prosecco). Það er því um ágætlega auðugan garð að gresja fyrir unnendur góðra freyðivína en líka margt að finna fyrir þá sem vilja kynnast öðrum freyðivínum.

Í febrúar skrifaði ég pistil um um Languedoc-Roussillon, þar sem ég fór yfir helstu víntegundir og víngerðarsvæði héraðsins. Þar var m.a. stuttur kafli um héraðið Limoux AOC, þar sem eru framleidd rauðvín, hvítvín og freyðivín. Í meginatriðum eru freyðivínin þrenns konar – Blanquette de Limoux (gerð úr þrúgunni Mauzac), Blanquette Méthode Ancestrale (gert úr Mauzac) og Crémant de Limoux, sem eru að mestu úr Chardonnay og Chenin Blanc. Crémant de Limoux og Blanquette de Limoux eru gerð með kampavínsaðferðinni – Méthode Traditionelle – en Blanquette Méthode Ancestrale eru gerð með „gömlu“ aðferðinni – Méthode Ancestrale.

Í kampavínsaðferðinni er vínið látið gerjast tvisvar, þar sem seinni gerjun á sér stað í flöskunni. Í gömlu aðferðinni er vínið sett á flöskur áður en gerjun er lokið, og gerjunin klárast svo í flöskunni. Vínin eru því ekki síuð eða losuð við mögulegt botnfall og geta því stundum verið skýjuð. Kolsýran er líka aðeins minni, áfengishlutfallið aðeins lægra og vínin geta verið aðeins sæt.

Í áðurnefndum pistli um Languedoc-Roussillon harmaði ég að ekki væru fáanleg freyðivín frá Limoux í vínbúðunum en nú hefur orðið breyting þar á! Góðvinur okkar Íslendinga, Gérard Bertrand, framleiðir vín í nánast hverju héraði í Languedoc-Roussillon og þar á meðal í Limoux, og nú fást freyðivín frá Limoux í vínbúðunum.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur úr Heritage-línu Gérard Bertrand, sem er gerð til að minnast menningararfsins í Languedoc-Roussillon. Elstu heimildir um klaustrið í Saint Hilaire eru frá árinu 825, en munkarnir í þessu klaustri munu hafa verið slungnir víngerðarmenn og m.a. gert léttfreyðandi vín. Vínið sem hér er til umfjöllunar er gert úr þrúgunum Chardonnay, Chenin Blanc og Pinot Noir. Víngerðin fer fram samkvæmt hefðbundnu aðferðinni (kampavínsaðferðinni).

Gérard Bertrand Crémant de Limoux Brut 2020 er fölgult og léttfreyðandi í glasi. Í nefinu er blómlegur ilumur af sítrusávöxtum, grænum eplum, perum og smá hunangi. Í munni er vínið þurrt, með frísklega sýru og freyðir ágætlega. Sítrus, epli, perur og smá gerkeimur í góðu eftirbragðinu. 90 stig. Mjög góð kaup (3.199 kr). Frábær fordrykkur en fer líka vel með skelfiski, fiskréttum og pinnamat hvers konar. Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,7 stjörnur (meðaleinkunn allra árganga – of fáar umsagnir komnar fyrir þennan árgang þegar þetta er skrifað).

Gerard Bertrand Crémant de Limoux Brut 2020
Mjög góð kaup
Gérard Bertrand Crémant de Limoux Brut 2020 er frábær fordrykkur en fer líka vel með skelfiski, fiskréttum og pinnamat hvers konar.
4.5
90 stig

Vinir á Facebook