Muga Selección Especial Reserva 2016

Vínin frá Bodegas Muga hafa löngum heillað íslenska vínunnendur og reservan þeirra hefur lengi verið á meðal vinsælustu Rioja-vína á Íslandi. En það eru fleiri góð rauðvín frá Muga í boði í vínbúðunum. Torre Muga og Prado Enea Gran Reserva eru frábær vín sem er vel þess virði að prófa, jafnvel þó svo að þau komi aðeins við budduna. Vín dagsins er viðráðanlegra fyrir flesta, þó ekki sé það beinlínis ódýrt.

Vín dagsins

Vín dagsins er að mestu búið til úr þrúgunum Tempranillo (70%), og Garnacha (20%) en í því er einnig örlítið af Graciano og Mazuelo. Að lokinni gerjun er vínið látið þroskast í 26 mánuði á nýjum tunnum úr franskri eik. Vínið er síað fyrir átöppun á flöskun, og fær svo að hvíla í 18 mánuði til viðbótar.

Muga Selección Especial Reserva 2016 er dökk-kirsuberjarautt á lit, með góða dýpt og byrjandi þroska. Vanilla, plómur, leður, eik, tóbak og kirsuberjasulta í nefinu. Í munni eru þykk tannín (þó aðeins farin að mýkjast upp), góð sýra og góður ávöxtur. Tóbak, leður, vanilla og smá eik í þéttu og góðu eftirbragðinu. 92 stig. Góð kaup (5.999 kr). Mjög gott vín sem fer vel með rauðu kjöti – nauti, lambi og villibráð.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,4 stjörnur (3.937 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Spectator gefur víninu 92 stig og meðaleinkunn gagnrýnenda á Wine Searcher eru 92 stig. Þorri Hringsson í Víngarðinum gaf 2015-árganginum 4,5 stjörnur.

Muga Selección Especial Reserva 2016
Góð kaup
Muga Selección Especial Reserva 2016 er mjög gott vín sem fer vel með rauðu kjöti - lambi, nauti og villibráð.
4.5
92 stig

Vinir á Facebook