Muga Prado Enea Gran Reserva 2014

Ég held að flest allir vínunnendur á Íslandi kannist við vínin frá Muga. Reservan þeirra hefur um árabil notið mikilla vinsælda og rósavínið þeirra hefur líka þótt með þeim betri hér á landi. Það vita kannski ekki allir að Reservan er í raun grunn-rauðvínið þeirra. Muga framleiða nefnilega 4 önnur rauðvín sem eru öll í hæsta gæðaflokki. Alls er nú hægt að fá 4 rauðvín frá Muga í vínbúðunum – það vantar aðeins flaggskipið Aro.

Gran Reservan frá Muga kallast Prado Enea. Líkt og gerist hjá mörgum toppframleiðendum þá er Prado Enea ekki gerð ef árgangurinn er ekki nógu góður. Þannig var vínið til dæmis ekki gert árin 2002, 2003, 2007 og 2008 (ef þið sjáið umsagnir um þessa árganga á Vivino þá eru umsagnirnar skráðar á ranga árganga). Það var heldur ekki gert árin 2012 og 2013, en það er væntanlegt árin 2015 og 2016, sem voru jú mjög góð ár í Rioja.

Prado Enea er gert úr þrúgunum Tempranillo, Grenache, Mazuelo (Carignan) og Graciano. Að lokinni gerjun er vínið látið liggja í 3 ár á eikartunnum (flestar tunnurnar eru úr franskri eik). Að lokinni síun og átöppun er vínið svo látið liggja í 3 ár á flösku áður en það fer í sölu.

Muga Prado Enea Gran Reserva 2014 er dökkrúbínrautt á lit, unglegt og með góða dýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, sólber, hindber, vanillu, tóbak, smá lakkrís og svartan pipar. Í munni eru þétt en mjúk tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Vínið hefur þétta og góða áferð með skógarberjum, tóbaki og mjúkri eik í flauelsmjúku eftirbragðinu. 95 stig. Frábært vín en tekur aðeins í veskið (8.999 kr). Fyrir flottar steikur en einnig pottrétti og osta eða bara eitt og sér. Þolir eflaust allt að 10 ár í góðri geymslu.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,5 stjörnur (666 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Spectator gefur þesum árgangi 93 stig. Þessi árgangur hefur ekki fengið einkunn hjá Robert Parker, en fyrri árgangar hafa verið að fá 94-97 punkta.

Muga Prado Enea Gran Reserva 2014
Frábært vín
Muga Prado Enea Gran Reserva 2014 er frábært vín fyrir flottar steikur en einnig pottrétti og osta eða bara eitt og sér.
5
95 stig

Vinir á Facebook