Orin Swift Papillon 2018

Í vor sagði ég ykkur frá víngerðarmanninum David Swift Phinney sem byrjaði með (nánast) tvær hendur tómar og hefur á rúmum 20 árum komið á fót öflugri víngerð sem sendir frá sér gæðavín á færibandi. Vínin sem ég skrifaði um í vor – Machete, Eight Years In The Desert og Palermo – hittu beint í mark hjá mér og tvö þeirra fengu 5 stjörnur hjá mér. Ég á þó eftir að segja ykkur frá 3 öðrum vínum Orin Swift og best að byrja strax á því besta!

Papillon nefnist Bordeaux-blandan frá Orin Swift. Vínið er gert úr þrúgunum Cabernet Sauvignon, Merlot, Petit Verdot, Malbec og Cabernet Franc. Að lokinni gerjun fékk það að liggja í 15 mánuði á tunnum úr franskri eik (rúmlega helmingurinn nýjar tunnur).

Orin Swift Papillon 2018 dökk-kirsuberjarautt á lit, djúpt en unglegt. Fjólur, plómur, kirsuber, brómber, vanilla, leður og eik í þéttum ilminum. Í munni eru massíf tannín, ríkuleg sýra og þéttur ávöxtur. Leður, plómur og krækiber í þéttu og góðu eftirbragðinu. 96 stig. Frábært vín sem fer vel með góðum steikum, öndum og ostum. Aðeins fáanlegt á veitingahúsum hérlendis (kostar 10.398 frá Globus).

Robert Parker gefur þessu víni 94 stig og Wine Spectator gefur því 93 stig. Notendur Vivino gefa því 4,5 stjörnur (1.995 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Orin Swift Papillon 2018
Frábært vín.
Orin Swift Papillon 2018 er frábært vín sem fer vel með góðum steikum, öndum og ostum.
5
96 stig

Vinir á Facebook