Orin Swift Eight Years In The Desert 2018

Fyrir skömmu skrifaði ég um vínhús Orin Swift en vínin frá Orin Swift hafa notið töluverðrar velgengni og skyldi engan undra. Því miður eru þessi vín ekki komin í vínbúðirnar en vonandi rætist úr því áður en langt um líður. Áhugasamir geta þó nálgast þessi vín á völdum veitingastöðum, þar á meðal Steikhúsinu í Tryggvagötu og á Grillmarkaðnum.

Vínið sem er til umfjöllunar í dag er að stofni til gert úr Zinfandel. Úrvalið af Zinfandel-vínum í vínbúðunum í dag er sæmilegt. Samkvæmt vef vínbúðanna eru nú 10 mismunandi Zinfandel-rauðvín fáanleg í vínbúðunum og eitt kassavín, en einnig fást 3 rósavín úr Zinfandel. Ef við teljum Primitivo með (sem er jú sama þrúga, en ræktuð á Ítalíu) má finna önnur 11 rauðvín í vínbúðunum. Líklega hef ég náð að prófa 3 þessara rauðvína í gegnum tíðina. Eitt af mínum uppáhaldsvínum er reyndar úr ZInfandel-þrúgunni, frá vínhúsi Seghesio í Kaliforníu. Því miður hefur enginn víninnflytjandi hér á landi tekið að sér að flytja það hingað til lands en kannski rætist úr því.

Vín dagsins

Eins og áður segir þá er vín dagsins að stofni til gert úr Zinfandel en í því er einnig að finna Petite Sirah og Syrah. Að lokinni gerjun var vínið látið liggja í 8 mánuði á tunnum úr franskri og amerískri eik. Nafnið vísar til þess að þegar þetta vín var fyrst búið til hafði David Phinney, stofandi Orin Swift, ekki gert vín úr Zinfandel í 8 ár. Það hefur þó ekki komið að sök því hér er frábært vín á ferðinni. Samkvæmt heimasíðunni er ætlunin að gera alls 8 árganga af þessu víni frá og með 2017-árgangnum og þetta ætti því að vera eftirsóknarvert fyrir safnara.

Orin Swift 8 Years In The Desert 2018 er dökkrúbínrautt á lit og mjög þétt, nánast ógegnsætt, unglegt. Í nefinu finnur maður brómber, bláber, anís og svartan pipar. Þétt og mikil tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Bláber, leður, eik, tóbak og dökkt súkkulaði í þéttu og góðu eftirbragðinu. Mjög gott vín en kemur aðeins við veskið (7.198 kr). Rann ljúflega niður með nautasteikinni og færi eflaust vel með góðri villibráð. Hefur gott af umhellingu. Mun eflaust endast vel næstu 10 árin eða svo. 93 stig.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4.4 stjörnur (5.637 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur þessu víni 92 stig og Wine Spectator gefur því 91 stig.

Orin Swift Eight Years In The Desert 2018
Orin Swift 8 Years In The Desert 2018 er frábært vín sem steinliggur með nautasteik og góðri villibráð.
5
93 stig

Vinir á Facebook