Orin Swift Machete 2017

Í vor sagði ég ykkur frá vínhúsi Orin Swift og tveimur frábærum fínum þaðan – Palermo og Eight Years In The Desert. Bæði þessi vín vöktu mikla hrifningu hjá mér og skyldi engan undra því þau hafa líka fengið mjög góðar viðtökur gagnrýnenda og vínunnenda. Vínin frá Orin Swift eru kröftug og aggressíf, en líka mjög vel gerð. Ég smakkaði reyndar líka 2 önnur vín frá Orin Swift í vor – Abstract og Papillon – og ég sé að ég á eftir að skrifa um þau hér á Vínsíðunni. Núna ætla ég reyndar að segja ykkur frá enn einu víninu frá Orin Swift.

Vín dagsins

Vín dagsins er kannski aggressívasta vínið frá Orin Swift. Hér er á ferðinni blanda af Petite Sirah, Syrah og Grenache, sem að lokinni gerjun hefur fengið að liggja í 12 mánuði á tunnum úr franskri eik, þar sem rúmur þriðjungur tunnanna er nýr. Vínið hefur óvenjuhátt áfengishlutfall eða 16,1%. Annað sem er óvenjulegt við þetta vín er að það eru 12 mismunandi flöskumiðar í hverjum árgangi. Þrúgurnar koma víðs vegar að úr Kaliforníu og vínið flokkast því einfaldlega sem rauðvín frá Kaliforníu.

Orin Swift Machete 2017 er dökk-dökkkirsuberjarautt, unglegt, með mikla dýpt og fallega tauma. Í nefinu finnur maður vanillu, plómur, leður, kirsuberjasultu, kakó og balsam. Massíf tannín, góð sýra og ríkulegur ávöxtur. Plómur, kirsuber og balsam í þykku og miklu eftirbragði. 94 stig. Frábært vín sem féll eins og flís við rass með ribeye frá Sælkerabúðinni. Frábær kaup (7.799 kr). Á eftir að njóta sín vel næsta áratuginn.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4.4 stjörnur (1.474 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur þessu víni 91+ stig. Wine Spectator gefur víninu 90 stig.

Orin Swift Machete 2017
Orin Swift Machete 2017 er frábært vín sem féll eins og flís við rass með ribeye frá Sælkerabúðinni. Meðmæli!
5
94 stig

Vinir á Facebook